27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Stöðugur straumur í fyrstu Krónuverslunina á Akureyri
„Það hefur verið stöðugur straumur hjá okkur í allan dag, allt frá því við opnuðum kl. 9 í morgun en þá hafði myndast röð fyrir utan verslunina,“ segir Bjarki Kristjánsson verslunarstjóri Krónunnar sem opnuð var við Tryggvabraut 8 á Akureyri. Fjöldi fólks hefur lagt leið sína í verslunina í dag og eflaust einhverjir eftir að líta við síðar í dag, en búðin er opin til kl. 21 á hverjum degi. Opnað er kl. 9 á morgnana.
Verslunin er rúmgóð og björt, alls um 2000 fermetra að stærð, húsnæðiðer glænýtt, fyrsta skóflustunga að þessari fyrstu verslun Krónunnar á Akureyri var tekin 15. júní í fyrra sumar. „Við höfum orðið vör við mikla eftirvæntingu fyrir opnun Krónunnar á Akureyri og því er mjög ánægjulegt að þessi langþráði draumur sé nú orðin að veruleika. Við viljum að Krónan komi sem ferskur andblær inn á markaðinn og auki fjölbreytnina sem fyrir er á Akureyri,“ segir Bjarki.
Fjöldi vörutegunda í nýju versluninni hleyptur á þúsundum. Starfsmenn eru um 50 talsins. „Krónan á Akureyri verður ein af okkar glæsilegustu verslunum. Það er frábært að geta loksins boðið þjónustu okkar og vöruúrval til íbúa Akureyrar og nærliggjandi sveita. segir Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar í tilkynningu.
Tveir veitingastaðir
Tveir veitingastaðir eru starfræktir í versluninni, en þar er að vinna útibú frá veitingastaðnum RUB23, sem býður upp á tilbúna rétti. Jafnframt mun veitingastaðakeðjan Wok On opna í versluninni og bjóða í fyrsta sinn upp á núðlurétti sína á Akureyri. Kjötiðnaðarmenn starfa í versluninni og sjá um að skera og pakka á staðnum þannig að ávallt verður í boði ferskt kjöt í versluninni.
Þá má nefna að Krónan býður upp á það sem heitir Skannað og skundað sem er að finna í Snjallverslunarappinu og gerir viðskiptavinum kleift að skanna vörur beint úr hillu, setja í körfu og poka og þurfa því ekki að hafa viðkomu við afgreiðslukassa.
Krónan mun einnig styðja við umhverfisvænan lífsstíl Akureyringa og bjóða umbúðalausar lausnir eins og þurrvörubar, þar sem viðskiptavinum gefst kostur á að fylla á eigin ílát. Frá áramótum verður jafnframt í boði að fá vörur Krónunnar heimsendar.