Afmælis- og aðventuhátíð Hjartalags fer fram á morgun laugardag, Hulda Ólafsdóttir það stendur mikið til? ,,Já það má segja það, Hjartalag er 9 ára á þessu ári og í fyrsta sinn eftir Covid sem ég opna vinnustofuna mína upp á gátt fyrir gestum svo það er mikil tilhlökkun. Ég hef svo boðið tveimur góðum vinkonum mínum að vera með mér þennan dag, Kristínu S. Bjarnadóttur í Blúndum og blómum og Ölmu Lilju Ævarsdóttur blómahönnuði úr Salvíu. Við leggjum mikið upp úr að taka vel á móti gestum með notalegri og glaðlegri aðventustemningu, kveikt verður á eldstæði úti í garði og boðið upp á heita jólaglögg og piparkökur. Svo er að sjálfsögðu hægt að kaupa íslenska hönnun í jólapakkann, finna aðventuskreytingu fyrir sig og sína eða næla sér í gómsæta Randalínu með kaffinu svo eitthvað sé nefnt“, sagði Hulda og tilhlökkunin leyndi sér ekki.