Sköpum heilbrigðan húsnæðismarkað
Við þekkjum það líklega flest að alvarleg staða hefur verið á íslenskum húsnæðismarkaði. Hið opinbera, bæði ríki og sveitarfélög, bera mikla ábyrgð þegar kemur að þeirri stöðu. Skort hefur samstöðu, metnað og sameiginlega framtíðarsýn hins opinbera til að bregðast við vandanum af krafti og festu. Þá ekki síst með því að styðja við tekjulága og auka framboð félagslegs húsnæðis.
Það voru því í mínum huga stórtíðindi þegar ríkið, Samband íslenskra sveitarfélaga og Húsnæðis og mannvirkjastofnun (HMS) náðu saman slíkri sýn í sumar í því sem kallast „Rammasamningur ríkis og sveitarfélaga um aukið framboð íbúða 2023-2032 og sameiginlega sýn og stefnu í húsnæðismálum“. Í þessum samningi kemur fram samstaða um að nauðsynlegt sé að stjórnvöld tryggi uppbyggingu íbúða í samræmi við þörf, þar á meðal fyrir tekju- og eignarlága.