6. nóvember - 13. nóvember - Tbl 45
Tugmilljónatjón af völdum smitandi veiruskitu
Tugmilljónatjón hefur orðið vegna smitandi veiruskitu sem herjað hefur á kúabú í Eyjafirði og S-Þingeyjarsýslu. Alls eru um 80 kúabú í Eyjafirði og um 40 í S-Þingeyjarsýslu. Sigurgeir Hreinsson framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Eyjafjarðar segir veiruna haga sér með svipuðum hætti og kórónuveiran geri gagnvart mannfólki og eru dæmi þess að hún hefur borist inn á bæi í allt að þrígang yfir ákveðið tímabil.
Sigurgeir segir veiruna hafa verið í gangi með stuttum hléum frá því síðla árs 2021. Þá hafi hún haft viðkomu á nánsta hverjum bæ á svæðinu. Hlé varð í skamma stund en um miðjan desember fór að bera á veirunni á ný í Þingeyjarsýslu. Í upphafi þessa árs barst hún yfir í Eyjafjörð og fór með undraverðum hraða milli bæja.
„Það eru um 40 kúabú í Eyjafjarðarsveit og á um það bil þremur vikum náði veiran að stinga sér niður á hvert og eitt þeirra,“ segir hann. Sem dæmi um við hvað er að eiga nefnir Sigurgeir að hann haldi nokkrar holdakýr, hvorki mjólkur- né fóðurbíll eigi erindi heim á hlað og enginn utanaðkomandi komi inn í fjós. „En veiran barst samt í gripina,“ segir hann og hefur ákveðnar grunsemdir um að hrafnar geti borið veiruna á milli. Hann hafi heygjafagrind úti á túni og þeir hafi ef til vill farið í hana.
Sigurgeir segir að skita hafi um árin stungið sér niður af og til og oft verið langt á milli, hann muni sjálfur eftir slíku m.a. árin 1963 og 1974 og síðan hafi liðið langur tími til þar til hennar varð vart næst. „Þessi sýking hefur ekki verið mjög áberandi á síðastliðnum árum,“ segir hann.
Fyrsta smitið kom upp í Svarfaðardal um liðna helgi, þar á undan hafði veiran verið að breiðast út í Hörgárdal og á Árskógströnd. Eins hefur hún farið um kúabúin á Svalbarðströnd og borist þaðan út í Höfðahverfi.
Hagar sér eins og kórónuveiran
„Þessi veira hagar sér nánast eins og kórónuveiran gerir í fólki, en þess eru dæmi að kýr hafi fengið veiruna í nokkur skipti. Þeir gripir sem fá veiruna skapa ekki ónæmi fyrir henni þegar hún berst inn í fjós næst,“ segir Sigurgeir. Á nokkrum bæjum hefur veiran komið inn tvisvar eða þrisvar sinnum. „Það virðist sem vörn gripanna sé engin þegar veiran blossar upp á ný, hún hverfur á þetta fjórum til sex mánuðum.“
Tjón af völdum sýkingarinnar er umtalsvert, en Sigurgeir giskar lauslega á að tjón á hverjum bæ geti numið um einni milljón króna þannig að tjónið er talið í tugum milljóna. Afurðatjón er mikið, en kýrnar mjólka um þriðjungi minna en þær geri vanalega á meðan þær eru veikar. Þá getur heilsufarstjón einnig orðið mikið, auk þess sem hætta á sjúkdómum eins og júgurbólgu verði meiri. Ekki algengt að kýr drepist af völdum sýkingarinnar en það hafi þó komið fyrir. „Það jákvæða við þetta allt saman er að kýrnar eru í langflestum tilvikum fljótar að ná sínum fyrri styrk,“ segir hann.
Sýni eru nú til rannsóknar og er niðurstöðu beðið að sögn Sigurgeirs.