Verkefnið Virk efri ár á Akureyri
„Með þessu verkefni erum við að svara kalli frá Félagi eldri borgara á Akureyri um aukið framboð á hreyfingu og virkni,“ segir Héðinn Svarfdal Björnsson verkefnastjóri lýðheilsumála hjá Akureyrarbæ. Virk efri ár er verkefni sem hefst á Akureyri innan tíðar og hefur að markmiði að styðja við heilsueflingu eldri íbúa sveitarfélagsins. Verkefninu er ætlað að styðja og auka hreyfingu eldri íbúa sveitarfélagsins, enda alkunna að regluleg hreyfing bætir heilsu og eykur lífsgæði.
Héðinn segir að ekki sé síður mikilvægt fyrir fólk í þessum aldurshópi að koma saman og eiga góða stund. Fólk mæti á æfingar, stundi íþróttir við hæfi og geri þannig eitthvað skemmtilegt með öðru fólki. „Þetta hefur mikið félagslegt gildi fyrir þátttakendur, fólk kemur saman, hlær og leikur sér og hefur gaman.“
Verkefnið var kynnt í Menningarhúsinu Hofi nýverið og mættu um 220 manns sem sýnir að áhugi á málefninu er mikill. Fjölmargt verður í boði og enn hægt að koma með uppástungur um fleiri valkosti. „Fyrsta lotan hefst eftir á morgun mánudaginn 13 feb og skráningar á það sem í boði er fara vel af stað. Við erum með í allt 12 tilboð um margvíslegar æfingar, blak, borðtennis, göngu- fót og körfubolta, jóga, styrktaræfingar, leiki, frisbígolfinnanhúss, pílu, sundleikfimi, gönguferðir og inni í þetta fléttum við einnig fræðslu,“ segir Héðinn. Árni Árnason og Sigrún Stefánsdóttir verða leiðsögumenn í gönguferðum og munu fræða þátttakendur um ýmislegt það sem fyrir augu ber á leiðinni.
Þrjár lotur yfir árið
Héðinn segir að með því að bjóða upp á fjölbreytt úrval af æfingum ættu allir að finna eitthvað sem hentar, fyrstu viðbrögð bendi til að val á íþróttagreinum hafi tekist ágætlega. „Við finnum fyrir miklum áhuga og skráningar hafa verið umfram væntingar,“ segir Héðinn og gerir ráð fyrir að fleiri bætist við þegar reynsla verður komin á verkefnið. Til stendur að bjóða upp á þrjár lotur yfir árið, fyrri hluta árs og fram á vor, eina yfir sumarið þar sem áhersla verður á útiveru og að nýta þær náttúruperlur sem bjóðast í bæjarlandinu og nágrenni þess og þriðja og síðasta lota ársins hefst að hausti og stendur til jóla.
Mannvirki í eigu Akureyrarbæjar verða nýtt fyrir æfingar, m.a. Boginn þar sem verður innanhúss frisbígolf og göngufótbolti sem dæmi og einnig hentar hann vel fyrir göngur þegar veður er ekki gott eða hálka á götum. Íþróttahöllin hýsir einnig nokkrar æfingar sem og fleiri mannvirki.
Auk þess sem í boði verða æfingar sem stuðla að aukinni hreyfingu og virkni er einnig á dagskrá fræðsla fyrir hópinn þar sem komið verður inn á næringu og svefn. „Okkar leiðarljós er að bjóða upp á fjölbreytta og áhugaverða dagskrá sem kemur fólki vel að gagni í daglegu lífi,“ segir hann. „Við hvetjum þá sem orðnir eru 60 ára eða eldri að kanna hvort ekki leynist eitthvað á dagskránni sem þeir hafa áhuga á. Við vonum að fólk prófi fleiri en eina íþróttagrein