Búið að vera þrautaganga að ná þessu
Kjarasamningar hafa náðst á milli Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, samningar sjómanna höfðu verið lausir síðan 2019 en skrifað var undir í Karphúsinu fyrrakvöld eins og kunnugt er . Samningarnir eru til tíu ára sem er líklega einsdæmi. Þeir gilda fyrir öll aðildarfélög Sjómannasambandsins. Félag vélstjóra og málmtæknimanna og Félag skipstjórnarmanna hafa einnig náð samningum.
Trausti Jörundarson er formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar, vefurinn leitaði eftir áliti hans á hinum nýja samningi.
Lengsti gildistími samnings sem sögur fara af, hlýtur að segja að þú sért sáttur?
Það er rétt að þetta er lengsti kjarasamningur sem gerður hefur verið samkvæmt þeim heimildum sem ég hef og það er mitt mat að það er af hinu góða, það er uppsagnarákvæði í samningnum sem hægt er að virkja eftir 5 ár þannig að ef upp koma mál sem ekki er hægt að leysa þá er möguleiki að virkja það ákvæði.
Hvað helst ertu ánægður með?
Það sem stendur uppúr í þessum samningi er aukin lífeyrisréttur fyrir sjómenn og að við náðum því þannig í gegn að valið sé sjómanna sjálfra hvort þeir vilja nýta sér þessi réttindi eða ekki.
Hversu mikill léttir er að hafa loks náð að landa kjarasamningi fyrir sjómenn eftir rúm 3 ár án samnings?
Þetta er búið að vera þrautaganga að ná þessu saman en það tókst loksins. Það er mín skoðun að það er mikilvægt að sjómenn fái tækifæri til að kjósa um kjaramálin sín og nú hefur það tekist.
Kynning á hinum nýja kjarasamningi blasir við, hvenær hefst atkvæðagreiðslan um hann og hve lengi stendur hún?
Atkvæðagreiðslan hefst þann 17. febrúar og stendur til 10. mars. Kynnigarfundir byrja strax eftir helgi og fyrsti fundurinn er þriðjudaginn 14. mars og ég reikna með að næsti fundur verði fimmtudaginn 16. mars og þá verður formaður SSÍ Valmundur Valmundsson á þeim fundi með mér. Það verða líka fundir á meðan á atkvæðagreiðslu stendur og svo er alltaf hægt að hringja í mig eða koma við á skrifstofu félagsins til að fá upplýsingar um innihald samningsins.
Í restina munt þú mæla með við þitt fólk að samþykkja þessa samninga?
Já að sjálfsögðu mun ég gera það. Það er mín skoðun að það er mikilvægt að sjómenn fái tækifæri til að kjósa um kjaramálin sín og nú hefur það tekist.