Tökur á bandarísku spennuþáttunum True Detective standa nú yfir á Dalvík og hefur miðbærinn heldur betur tekið breytingum, hluti bæjarins hefur verið klæddur í gervi lítils bæjar í Alaska-ríki í Bandaríkjunum. Í gamla fiskvinnsluhúsi Samherja á Dalvík eru skrifstofur framleiðenda þáttanna og þar er leikmunadeildin sömuleiðis til húsa. Nokkrir starfsmenn Samherja á Dalvík hafa ráðið sig í aukahlutverk.
Gamla fiskvinnsluhúsið „algjörlega sniðið að okkar þörfum“
„Það er hreint út sagt frábært að vera hérna á Dalvík, allir íbúarnir taka vel á móti okkur og leggja sig fram um að gera alla vinnu sem þægilegasta. Sömu sögu er að segja um sveitarfélagið og öll fyrirtæki, sem eru boðin og búin til að greiða götu okkar á allan hátt. Við segjum stundum að gamni að smábærinn sé í Dalaska en ekki í Alaska, sem undirstrikar hversu heppin við erum með alla aðstöðu hérna á Dalvík,“ segir verkefnastjóri framleiðandans.