27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Kallað eftir því að framhald verði á ráðstefnunni
Um síðustu helgi var haldin ráðstefna á Húsavík með þátttöku fulltrúa frá öllum viðbragðsaðilum á Norðurlandi eystra hvað almannavarnir snertir. Yfirskriftin var „Ráðstefna um aðgerðamál“ og var kostnaðurinn við þátttöku allra aðila greiddur af Almannavarnanefnd í umdæmi lögreglustjórans á Norðurlandi eystra.
Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri sagði í samtali við Vikublaðið að það væri ekki sjálfgefið að vera undirbúin, skipulagður eða búa yfir þekkingu og þéttriðið net viðbragðsaðila þegar á þarf að halda. Hún segir jafnframt að hér á Norðurlandi eystra hafi á undanförnum árum verið lagður mikill metnaður í það að viðbragðsaðilar séu í nánum tengslum og samskiptum. „Við erum búin að taka aðgerðarmálin mikið í gegn hjá okkur undanfarin ár og erum komin á mjög góðan stað í þeim efnum,“ segir Páley og bætir við að það sé ekki síður mikilvægt að viðhalda þessari þekkingu og efla.
Alls 60 manns komu saman
Þátttakendur á ráðstefnunni komu frá lögreglunni, svæðisstjórnum Landsbjargar á svæðum 11 og 12, RKÍ, HSN, SAk, Norðurorku, öllum slökkviliðum í umdæminu og fulltrúum frá almannavarnanefndinni sjálfri. Samtals voru þetta tæplega 60 manns.
Fyrirlesarar komu úr röðum þessara aðila og þá voru einnig m.a. gestafyrirlesarar frá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Landsbjörg, Neyðarlínunni, Lögreglunni á Höfuðborgarsvæðinu og Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra.
Farið var yfir aðgerðamál í víðu samhengi sem og ýmsar nýjungar sem hvað helst varða tæknilega þætti í samskiptum og miðlun upplýsinga.
„Við vorum að fara yfir hvernig við notum fjarskiptin og nýjar tæknilausnir en þær eru m.a. notaðar til að streyma frá ýmislegu sem við erum að gera,“ segir Páley og bætir við að búnaðurinn sé sífellt að verða betri enda ekki vanþörf á.
Búnaður sífellt betri
„Búnaðurinn bæði hjá okkur og björgunarsveitunum er mjög góður. Við höfum verið að nota dróna, bæði sem við erum að streyma frá og svo er lögreglan líka með búkmyndavélar. Síðan snýst þetta um hvernig við notum fjarskipti lögreglunnar og hvaða gögn og upplýsingar sem viðbragðsaðilar geta sent okkur í mál og slíkt. Það voru m.a. slíkir hlutir sem voru til umræðu á ráðstefnunni,“ útskýrir Páley og bætir við að hópurinn sem kom saman á Húsavík um helgina hafi aðallega verið að fjalla um aðgerðarmálin í víðu samhengi.
„Þetta var mikið til fólk sem er á listum hjá okkur í aðgerðarstjórnum. Næst á dagskrá hjá okkur er að vinna meira með vettvangsstjórnunina, hvernig hún er,“ segir Páley.
Afhentu bíl til vettvangssjórnar
Á ráðstefnunni var formlega afhentur bíll sem nota á fyrir vettvangsstjórn í verkefnum í umdæminu. Bílinn gaf embætti LSNE en svæðisstjórn á svæði 11 mun sjá til þess að hann verði ávallt til þjónustu reiðubúinn og mæta með hann í verkefni. Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri, og Reimar Viðarsson, formaður svæðisstjórnar á svæði 11, undirrituðu samkomulag þess efnis við hátíðlega athöfn í Slökkvistöðinni á Húsavík.
„Það má segja að þetta sé fyrsta skrefið í vinna meira með aðgerðarmálin, að setja þennan bíl á laggirnar og fá þannig betri aðstöðu. Við höfum hingað til verið að vinna þetta í lögreglubílunum en þeir eru oft í öðrum verkefnum. Við ætlumst ekki til þess bíllin verði eingöngu notaður í lögregluaðgerðum. Þennan bíl geta björgunarsveitirnar líka þó við séum ekki í aðgerðinni,“ segir Páley og leggur áherslu á að bíllinn verði sameiginlegt vinnutæki allra viðbragðsaðila. „Ef við ætlum að nota vinnutækin þá er best að nota þau sem oftast, þá verður mönnum það tamast að ganga um þau og það verði einfalt að grípa til þeirra.“
Bíllin verður staðsettur á Akureyri en björgunarsveitin Súlur mun sjá um reksturinn á honum. „Við gerðum samning við Súlur um reksturinn á bílnum. Sveitin hugsar um hann og munu innrétta hann, bæta inn í hann tækjum og búnaði,“ segir Páley en bíllin sem um ræðir var áður hluti af bílaflota lögreglunnar. „Það er því mjög hentugt að fara nota hann án þess að taka allan búnaðinn sem er í honum. Í honum er ýmis lögreglubúnaður sem við tókum ekki úr. Við tókum aðeins merkingarnar af honum og endurmerktum sem vettvangsbíl. Þetta er gríðarlega mikilvægt tæki fyrir okkur að geta notað því á vettvangi geta verið afar vondar aðstæður. Þá er þetta bíll sem hægt er að fara á, þar er hægt að hlaða tæki og tól, standa uppréttur inn í honum og skipuleggja sig, hengja upp alls konar plön og kort,“ segir Páley og bætir við kímin að bíllinn sé nú þegar kominn með gælunafn.
„Reykjavík er með bíl sem er kallaður Björninn, enda mjög stór. Þess vegna var það fljótt brandari hjá okkur að þessi verði kallaður Húnninn.“
Reyndi á samstarfið
Það má segja að það hafi verið táknrænt að á meðan fulltrúar frá öllum viðbragðsaðilum á Norðurlandi eystra að þá hafi borist stórt útkall, sem reyndi á samstarfið sem var til umfjöllunar. Eftir hádegi á föstudag fór rúta út af veginum við Ólafsfjörð með 25 farþega sem þurftu aðhlynningu og þjónustu í kjölfarið og var það leyst á farsælan hátt.
„Já við þurftum að gera það. Við vorum þarna með allt aðgerðafólkið okkar, þau brugðu sér bara afsíðis með tölvur og talstöðvar en aðgerðinni var að miklu leiti stjórnað frá Húsavík. Við vorum auðvitað með lögreglufólk á slystað og ræstum út björgunarsveit og rauðakrossinn sem tók á móti fólki í skólanum og veitti áfallahjálp. Tryggðum flutning á farþegunum í skólann, það gekk allt vel og fór mun betur en á horfðist. Fólkið var mjög skelkað skiljanlega,“ útskýrir Páley en Veðurstofan gaf einnig út appelsínugula vindaviðvörun um helgina og þurftu viðbragðsaðilar að stilla saman strengi sína hvað það varðar.
Fara fram með góðu fordæmi
Páley segir að ráðstefnan hafi gegnið vonum framar og þátttakendur verið mjög ánægðir.
„Það var líka þannig að menn kalla eftir því að framhald verði á þessu. Við erum svo sem ekki búin að forma hvernig það verður eða hversu oft,“ segir Páley og bætir við að það sé mikils virði fyrir alla hluteigandi að koma saman og kynnast betur.
„Þegar verið er að vinna með svona mörgu fólki í umdæminu þá er eiginlega nauðsynlegt að fá að hitta það. Það gerði heilmikið fyrir okkur að fá andlit á nöfnin og kynnast betur. Það má ekki vanmeta það, þó fræðslan sé auðvitað gríðarlega mikilvæg; að fólk viti hverjir eru á hinum endanum.“
Þetta er í fyrsta sinn sem ráðstefna af þessu tagi er haldin hér á landi en það undirstrikar það góða samstarf sem komið hefur verið á hjá viðbragðsaðilum í umdæminu á undanliðnum árum. „Þetta hefur aldrei verið gert áður hér á landi svo ég viti, að við boðum alla viðbragðsaðila í umdæminu á svona ráðstefnu. Við höfum áður verið með ráðstefnu á landsvísu sem almannadeildin heldur og það eru þá lögreglustjórar og svo nokkrir úr embættunum en ekki svona eins og hér, allur þessi hópur bara innan umdæmisins,“
Aðspurð um hvort umdæmið gefi ekki ákveðið fordæmi með þessu fyrir aðra landshluta segir Páley að umdæmið fari fram með góði fordæmi í þessu sem öðru.
„Við erum að því í öllum málum, það er litið til okkar í þessum aðgerðarmálum líka, því hér höfum við gert mjög vel,“ segir Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri að lokum.