Mikill fjöldi neikvæðra umsagna
fyrir skemmstu lauk kynningu breytingar deiliskipulags Norðurhafnarsvæðis á Húsavík. Skipulags- og framkvæmdaráð fjallaði um athugasemdirnar á fundi sínum þann 24. janúar og vísaði þeim til frekari umsagnar í Stjórn Hafnasjóðs Norðurþings.
Alls bárust 41 umsögn. Áki Hauksson vék af fundi við umræður þessa máls en hann var einn þeirra sem sendi inn umsögn og mótmælti fyrirhuguðum skipulagsbreytingum.
Á svæðinu er lóð H2 þar sem fyrirtækið Íslandsþari hyggst reisa 5000 fermetra hús þar sem þurrkaður verður stórþari, allt að 40 þúsund tonn á ári.
Minjastofnun og Vegagerðin gerðu ekki athugasemdir við deiliskipulagið í athugasemdum sínum en aðrar umsagnir voru neikvæðar og var deiliskipulaginu mótmælt kröftulega.
Afgreiðslu umsagna var frestað á fundi stjórnar Hafnarsjóðs.
Áhætta vegna efnabruna
Slökkvilið og Eldvarnareftirlit Norðurþings er einn þeirra aðila sem sendu inn umsögn þar sem talið er að mikil óásættanlega áhætta sé fólgin í því að heimila starfsemi Íslandsþara á þessum stað í ljósi gríðarlegrar efnanotkunar sem nota á við framleiðsluna. Slökkvistöðin á Húsavík er staðsett næst lóðinni H2 sem umrædd breyting á deiliskipulagi er til umfjöllunar.
Slökkviliðið bendir á mikla áhættu sem er fólgin í því að í húsinu sem Íslandsþari hyggst reisa á lóðinn verði geymd hættuleg efni í miklu magni s.s. Kornaður sódi, brennisteinssýra og vetnisperoxíð.
Segir í umsögn Slökkviliðsins að öll þessara efna séu flokkuð sem hættuleg efni og fyrirhugað sé að geyma öll efnin innanhúss í mannvirkinu sem auki stórlega líkur á því að þar geti skapast illviðráðanlegur og stórhættulegur atburður sem gæti leitt til rýmingar á íbúabyggð í næsta nágrenni ef vindátt sé óhagstæð.
„Lóð H2 liggur næst lóðinni Norðurgarður 5. sem á stendur slökkvistöð sveitarfélagsins og í henni er starfrækt stjórnstöð almannavarna í umdæminu sem hugsanlega þyrfti að virkja verði stórslys t.d. bruni, sprenging eða efnaleki af völdum Brennisteinssýru eða Vetnisperoxíðs á starfssvæði verksmiðjunnar sem valdið getur því að eitraðar gufur leggist yfir og inn í stöðina að Norðurgarði 5. sem er innan grunnrýmingarsvæðis og gert hana og allt viðbragð frá henni óstarfhæft . Þessar aðstæður gera það að verkum að ekki væri hægt að virkja fyrsta viðbragð frá Húsavík og kalla þyrfti til nærliggjandi slökkvilið sem tekur a.m.k. 1 – 1 ½ klst,“ segir í umsögn Slökkviliðsins en rökin fyrir afstöðunni er rakin í löngu máli en hana má nálgast á vef Norðurþings sem og aðrar umsagnir. Slökkvilið Höfuðborgarsvæðissins og HMS taka undir athugasemdir Slökkviliðs Norðurþings í umsögnum sínum.
„Slökkviliðið og Eldvarnareftirlit Norðurþings leggjast alfarið gegn staðsetningu verksmiðjunnar á reit H2 við Norðurgarð byggða á áðurtöldum rökum og munu ekki geta veitt jákvæða umsögn vegna starfseminnar miðað við þessa staðsetningu þar sem hún ógnar öryggi viðbragðsþjónustu í Norðurþingi í ljósi þeirra atburða sem geta orðið í starfsemi hennar,“ segir í umsögninni.
Starfsemin skerði framtíðarmöguleika hafnarinnar
Aðrar umsagnir benda á að umrædd lóð sé á athafnasvæði hafnarinnar og sé ekki skilgreind sem iðnaðarsvæði. Fyrirhuguð starfsemi af þessari stærðargráðu muni skerða framtíðarmöguleika hafnarinnar, ekki síst í tengslum við verkefnið Grænir iðngarðar á Bakka.
Þá eru margar umsagnir sem benda á það að Íslandsþari byggi fyrirhugaða starfsemi sína á 5 ára rannóknarleyfi. Velta margir fyrir sér hvað gerist að þessum fimm árum liðnum ef leyfi á þaratekju verði ekki framlengt. Benda jafnaframt margir á það að rannsóknir á áhrifum þaratekjunnar á lífríki hafsvæðisins séu skammt á veg komnar.
Þá er bent á að umrætt svæði sé í hjarta bæjarins og þar sé mikil og blómleg starfsemi í ferðaþjónustu. Iðnaður af þessari stærðargráðu eigi ekki heima innan um þá starfsemi sem þegar er á hafnarsvæðinu.
Málið í efnislegri meðferð
Vikublaðið leitaði viðbragða hjá Katrínu Sigurjónsdóttur, sveitarstjóra Norðurþings en hún sagði að allar umsagnir fái efnislega meðferð. „Það er rétt, það bárust margar athugasemdir og sumar hverjar margþættar. Allar hafa verið birtar og teknar til kynningar í stjórn hafnasjóðs og skipulags og framkvæmdaráði. Allar umsagnir fá efnislega meðferð og verður svarað af SF ráði,“ segir Katrín í skriflegu svari og bætir við að ferlið sem nú er í gangi snúi að breytingum á deiliskipulagi en ekki að úthlutun lóðarinnar.
„Álit slökkviliðsstjóra fær efnislega meðferð eins og allar umsagnir sem berast í ferlinu,“ segir Katrín spurð að því hvort umsögn Slökkviliðsins hafi sérstakt vægi í afgreiðslu á umsögnum.
Eiður Pétursson, formaður stjórnar Hafnarsjóðs segir að eins og staðan sé núna sé beðið eftir frekara áhættumati vegna hönnunar á verksmiðjunni og jafnframt áhættumats vegna ýmissa rekstrarforsenda verksmiðjunnar.
„Þar sem mikið af umsögnum barst vegna þessa máls og margar þeirra mjög vel unnar og vel ígrundaðar þá tel ég mikilvægt að taka næstu skref af yfirvegun og reyna að vanda málsmeðferðina eins og kostur er bæði af virðingu við fyrirtækið sem er að óska eftir að koma hingað og jafnframt þeirra sem telja sig hafa athugasemdir við þetta plan,“ segir Eiður.
Spurður út í umsögn Slökkviliðs Norðurþings segist Eiður ekki vilja fjalla um hana sérstaklega.
„Varðandi athugasemdir slökkviliðsstjóra þá vil ég ekki fjalla sérstaklega um þær einar og sér að svo komnu máli en ég tel þær ekki vera alfa og omega í þessu máli,“ segir Eiður.