Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri og Listaháskóli Íslands hafa tekið höndum saman til að vinna að þróun, uppbyggingu og samvinnu milli skólanna um inngildandi nám á háskólastigi fyrir fólk með þroskahömlun. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur undirritað samning tengdan verkefninu sem felur í sér 16,5 m.kr. fjárstuðning til ráðningar verkefnastjóra sem leiða verkefnið, hafa starfsskyldu í öllum háskólunum og tryggja þannig samstarf og aðkomu allra skólanna að verkefninu. Samhliða þessu fer ráðuneytið yfir löggjöf, reglugerðir og fjármögnun námsins með það að markmiði að styðja við uppbyggingu þess.