Grunur um myglu í Amaro-húsinu

Amaro-húsið á Akureyri. Mynd/GN
Amaro-húsið á Akureyri. Mynd/GN

Efla verkfræðistofa hefur framkvæmt ástandsskoðun á Heilsugæslunni á Akureyri sem er til húsa í Hafnarstræti 99 á Akureyri, eða Amarohúsinu eins og það er kallað. Skimað var eftir raka, aflað var efnissýna og framkvæmdar loftgæðamælingar meðal annarra þátta samkvæmt upplýsingum frá EFLU.

Heilsugæslustöð HSN er staðsett á 6. hæð í húsinu og einskorðast ástandsskoðunin við rými heilsugæslunnar. Jón Helgi Björnsson, forstjóri HSN staðfestir í samtali við Vikublaðið að mælingin hafi farið fram vegna gruns um myglu. „Við vorum að láta mæla þetta og erum að bíða eftir niðurstöðum,“ segir hann.

Þá segir Jón Helgi að ákveðið hafi verið að kanna ástand á húsnæði heilsugæslunnar  nánar eftir ábendingar og kvartanir starfsfólks um léleg vistgæði.

„Já, menn hafa verið að kvarta yfir vondum loftgæðum og lykt. Það er búið að vera mikið um misjöfn veður í vetur, bæði kalt og hlýtt. Þannig að það hafa verið lekar sem því fylgja. Við vorum að bregðast við kvörtunum yfir vistgæðunum þarna,“ útskýrir Jón Helgi og bætir við að það komi honum ekki sérstaklega á óvart.  „Þetta er eldgamalt hús og er búið að vera óhæft undir þessa starfsemi í 15 ár.“

Niðurstöður á næstu vikum

Óli Þór Jónsson frá EFLU segir að sýni hafi verið tekin fyrir 2-3 vikum og loftgæðamælingar séu nú í gangi. Lokaniðurstöður ættu að liggja fyrir á næstu vikum.

„Þetta er verkefni í vinnslu, en rannsóknum er ekki lokið. Það voru framkvæmdar loftgæðamælingar í leiðinni. Þetta er í raun og veru ástandsmat á húsnæði heilsugæslunnar og það felur í sér allt mögulegt, rakaskimun og fleira,“ segir Óli Þór og bætir við að svona ferli taki alltaf sinn tíma.

„Þetta er stórt hús með mörgum skúmaskotum og í mörg horn að líta. Ástandsskoðun á svona stórum húsum fer yfirleitt fram á mörgum vikum. Almennilegar niðurstöður gætu komið eftir einhverjar vikur, þannig að botn fáist í málið,“ segir hann.

Fréttin hefur verið uppfærð:

Upphaflega var greint frá því að ástandsskoðun hafi farið fram í öllu Amaró-húsinu en eftir ábendingu um að aðeins hafi verið framkvæmd skoðun á húsnæði heilsugæslunar hefur fréttin verið uppfærð í samræmi við það.

Nýjast