Sesselja Ingibjörg ráðin framkvæmdastýra Driftar EA
Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastýra DRIFTAR EA á Akureyri, félags sem hefur það að markmiði að byggja upp frumkvöðla- og nýsköpunarstarf á Eyjafjarðarsvæðinu.
Sesselja Ingibjörg er með víðtæka reynslu úr atvinnulífinu, síðustu þrjú ár var hún framkvæmdastýra nýsköpunar- og orkuverkefnisins EIMS, eins og segir í tilkynningu um ráðninguna nú í morgun.
Þá hefur hún undanfarin ár starfað með ýmsum fjárfestum, bæði sem frumkvöðull og fjárfestir. Undir hennar forystu var stofnuð grasrótarhreyfingin Norðanátt, sem er hreyfiafl nýsköpunar. Einnig hefur Sesselja Ingibjörg starfað sem ráðgjafi stjórnvalda varðandi nýsköpun.
Sesselja Ingibjörg er með BA gráðu í lögfræði, sveinspróf í framreiðslu og hefur lokið MBA-námi í viðskiptum og stjórnun.