Akureyri - Bílastæðagjöld verða innheimt við Oddeyrartanga
Bæjarráð Akureyrar hefur samþykkt að veita Hafnasamlagi Norðurlands bs, heimild til að innheimta gjald á bifreiðastæði HN á Oddeyrartanga og óska samþykkis lögreglustjóra fyrir notkun lóðarinnar sem stöðureits.
Hafnasamlag Norðurlands hefur útbúið bílastæði á lóð sinni við Oddeyrartanga og nam kostnaður við gerð þess um 80 milljónum króna. Svæðið er fyrst og fremst ætlað hópferðabifreiðum og bílum sem þjónusta skemmtiferðaskip á Akureyri en auk þess geta langferðabifreiðar nýtt sér stæðin í stað þess að leggja stórum bílum hér og hvar um bæinn og jafnvel án heimildar.
Til að standa straum af kostnaði við gerð stæðanna og viðhaldi óskaði HN eftir því við bæjaryfirvöld að fá heimild til að taka upp gjaldtöku á svæðinu eftir gjaldskrá sem hafnasamlagið setur. Samlagið mun sjá um rekstur og viðhald svæðisins.
Notast verður við myndavélar sem lesa númer við komu og brottför bílanna þannig að stöðuverðir Akureyrarbæjar þurfa ekki að vakta svæðið.