Heldur fleiri hafa áhyggjur af fjárhagsstöðu sinni en árið á undan

Anna Júlíusdóttir formaður Einingar Iðju. 42% þeirra sem svöruðu könnuninni höfðu frekar eða mjög mi…
Anna Júlíusdóttir formaður Einingar Iðju. 42% þeirra sem svöruðu könnuninni höfðu frekar eða mjög miklar áhyggjur af sinni fjárhagsstöðu, sem er aukning um tæp 4% frá fyrra ári.

Heldur fleiri félagsmenn Einingar-Iðju hafa frekar eða mjög miklar áhyggjur af fjárhagsstöðu sinni miðað við fyrra ár. Þetta kemur fram í niðurstöðum Gallup könnunar sem félagið í samstarfi við AFL starfsgreinafélag lét framkvæma um ýmis atriði er snerta kaup, kjör og aðstæður félagsmanna sinna.

Fram kom í könnuninni að 42% þeirra sem svöruðu höfðu frekar eða mjög miklar áhyggjur af sinni fjárhagsstöðu, sem er aukning um tæp 4% frá fyrra ári. Tæplega 30% þeirra sem svöruðu höfðu litlar eða engar fjárhagsáhyggjur. Hópurinn 35 til 44 ára sker sig úr en þar sögðust 55% svarenda vera með frekar eða mjög miklar áhyggjur af fjárhagsstöðunni. Hægt var að svara á þremur tungumálum, íslensku, ensku og pólsku, og skera enskumælandi sig úr en 57% þeirra hafa áhyggjur af stöðunni.

Spurt var hvort félagsmenn hefðu frestað því að leita til læknis eða tannlæknis eða sleppt því að kaupa lyf. Anna Júlíusdóttir, formaður Einingar-Iðju,segir að sem betur fer þá fara þær tölur örlítið lækkandi hvað varðar heimsóknir til lækna og tannlækna en alls ekki nógu mikið. Rúmlega 24% þeirra sem svöruðu höfðu frestað læknaheimsókn sem eru færri en árið á undan þegar tæplega 27% kváðust hafa frestað því að fara til læknis, miðað við 22% árið 2021. Örlítið færri höfðu slegið tannlæknaheimsókn á frest, 37,5% miðað við tæplega 39% svarenda árið áður. Því miður þá eru aðeins fleiri sem höfðu sleppt því að leysa út lyf samkvæmt könnuninni fyrir síðastliðið ár miðað við árið á undan eða 17,2% miðað við 15,7%.

Svipað margir í erfiðleikum með að standa í skilum

Fram kom að tæplega 17% þeirra sem svöruðu höfðu átt í erfiðleikum með að standa í skilum með lán sín og eru það aðeins færri en var í sambærilegri könnun fyrir árið 2022 þegar rúmlega 18% voru í erfiðleikum með að greiða af sínum lánum. Árið 2021 var sambærileg tala tæplega 13%.Um 20% þeirra sem þátt tóku höfðu leitað eftir fjárhagsaðstoð, flestir höfðu leita á náðir ættingja eða vina til að ná endum saman.

„Könnunin sýnir að um fimmtungur félagsmanna eiga í erfiðleikum og miðað við það er alveg ljóst að margir hafa það ekki gott. Dýrtíðin bítur og hefur bitið í of mörg ár. Það finna held ég allir fyrir því að allt hefur hækkað undanfarin ár. Vonandi nást þannig samningar núna að verðbólga og vextir geti lækkað og að fyrirtæki, sveitarfélög og ríki haldi aftur af hækkunum þannig að fólk eigi auðveldara með að standa í skilum með skuldbindingar sínar og geta lifað sómasamlegu lífi. Í dag sjáum við að það þrengir verulega að,“ segir Anna.

Sambærileg könnun hefur verið gerð undanfarin 13 ár. Haft var samband við 3.000 félagsmenn sem valdir voru af handahófi úr félagaskrám þessara tveggja félaga, 1.500 í hvoru félagi. Könnuninn var gerð í október og nóvember sl.

 

Nýjast