Götuhornið - Áhugamaður um grasafræði skrifar
Í vikunni las ég frétt um konu sem fylltist afbrýðisemi þegar hún komst að því að maðurinn hennar var farinn að rækta kannabisplöntur með annarri konu. Þetta þótti henni vera hið mesta tryggðarof sem hún tilkynnti umsvifalaust til lögreglu. Hin ótrúi þrjótur fékk makleg málagjöld og sömuleiðis væntanlega kona sú sem hann samrækti.
En svo maður reyni að stilla sig um að gera grín að því sem fyrir öðru fólki er alvörumál, þá á ég svolítið erfitt með að átta mig á því hvernig mál standa í heiminum hvað varðar þessi kannabisefni. Þau eru vissulega án áhættu fyrir þá sem þau nota, fremur en svo margt annað sem fólk notar eða gerir. Ekki þó jafn hættuleg og áfengi miðað við þá þekkingu sem vísindin hafa skilað okkur. Sjálfum hefur mér ekki dottið í hug að prófa þetta því að ég er alveg nógu latur og úti á þekju eins og ég er af Guði gerður.
Ég hef ekki farið nema til milli 20 og 30 landa um ævina en það vill svo til að á síðasta ári fór ég til tveggja ríkja þar sem kannabis er leyft og selt, keypt og notað fyrir opnum tjöldum á löglegan hátt. Í báðum þessum ríkjum hafði þetta verið svo í nokkur ár. Ekki virtust samfélög þessara ríkja hafa steypst í neina glötun vegna þessa nema síður væri. Engir vítiseldar loguðu og hvergi var að sjá glæpaöldur sturlaðra kannabisneytenda farandi hamförum um allt samfélagið við ofbeldis- og glæpaverk. Ef marka má íslenska lögreglustjóra er þó ekki minnsti vafi á að sú yrði raunin hér ef banni gegn kannabisefnum yrði aflétt hér.
Ég ætla svo á þessu ári að fara til eins ríkis í viðbót þar sem staðan er einhversstaðar mitt á milli. Þar er bannað að neyta kannabisefna, bannað að selja þau eða kaupa, bannað að flytja þau inn og út. Það má hins vegar kaupa og eiga kannabisfræ, koma þeim til og rækta tiltekið magn af plöntum. Það má sömuleiðis kaupa sama magn af plöntum af öðrum sem hafa komið til fræjum og rækta þær áfram. Þetta er stórskrítin millilending í mínum augum.
Samtalið um kannabis mun óhjákvæmilega halda áfram um alla veröld og engin leið að sjá hvort og hvernig því lýkur. Skipulögð glæpa- og hryðjuverkasamtök hljóta að fylgjast vel með henni, því að bannreglur um vímuefni eru jú grundvöllur fjárhagslegrar afkomu þeirra. Samtök af þessu tagi hafa um áratugaskeið haft góðar tekjur og litla áhættu af dreifingu og sölu fíkniefna og svo virðist sem löggæsla hafi ekki svar við starfssemi þeirra eða a.m.k. þyki þægilegra að elta uppi þá sem nota efnin.