Þingeyjarsveit - Vilji til endurskoðunar gjaldskrár verði af þjóðarsátt

Valgaskógur í vetrarbúning                         Mynd  www.thingeyjarsveit.is
Valgaskógur í vetrarbúning Mynd www.thingeyjarsveit.is
 

„Eitt stærsta hagsmunamál fyrir heimilin í landinu er verðstöðugleiki. Lækkun verðbólgu, stýrivaxta og ekki síður langtímavaxta skiptir miklu máli fyrir fjárhagslega afkomu fólks, fyrirtækja og sveitarfélaga,“ segir í bókun byggðaráðs Þingeyjarsveitar.

Byggðarráð styður þær fyrirætlanir að lögð sé áhersla á langtímakjarasamninga með verðstöðugleika til lengri tíma að leiðarljósi.
„Ef í burðarliðnum er þjóðarsátt um stöðugt verðlag, þar sem bæði launþegahreyfingar starfsmanna á almenna markaðinum og opinberra starfsmanna ganga í takt, þá er Þingeyjarsveit reiðubúin að leggja sitt af mörkum og endurskoða gjaldskrárhækkanir,“ segir enn fremur.

Byggðarráð minnir jafnframt á að innan sveitarfélagsins eru einingar á borð við sorphirðu. Lögum samkvæmt er gert ráð fyrir að slíkar einingar séu sjálfbærar og verða gjaldskrár að taka mið af því.
Almenn hækkun á gjaldskrám Þingeyjarsveitar í fjárhagsáætlun 2024 er 7,5% sem tók mið að áætlaðri verðbólgu ársins 2023 og 2024. Þrátt fyrir samþykkta fjárhagsáætlun ársins 2024 lýsir byggðarráð Þingeyjarsveitar yfir vilja til að endurskoða gjaldskrárhækkanir verði af þjóðarsátt.

Nýjast