Fiskidagurinn mikli fór fram s.l laugardag á Dalvík og að venju með miklum glæsibrag. Þetta var í tuttugasta sinn og er áætlað að nokkuð á fjórða tug þúsunda hafi heimsótt Dalvík þessa helgi. Samherji sem ætíð hefur stutt vel við bakið á Fiskideginum mikla fagnar á þessu ári fjörtíu ára afmæli og þar á bæ gripu menn tækifærið og opnuðu fiskvinnsluhúsið nýja fyrir gestum og gangandi. Óhætt er að segja að áhugi fyrir því að skoða húsið hafi verið mikill því hátt í 7000 manns litu við.
Á heimasíðu Samherja segir frá þessu:
,,Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja segir að afar ánægjulegt hafi verið að sýna húsið á þessum degi. Stemningin á Dalvík er einstök á Fiskideginum mikla, samstaða íbúanna er mikil og hlýhugur og gleði allsráðandi. Í mínum huga undirstrikar hátíðin með skýrum hætti að Dalvíkingar eru stoltir af því að sjávarútvegur er helsta atvinnugreinin, enda eru þeir sjómenn og fiskvinnslufólk í fremstu röð.
Samherji er stór vinnuveitandi í sveitarfélaginu og við bjóðum gestum hátíðarinnar að smakka afurðir okkar með mikilli ánægju og stolti.
Ég þakka þeim sem sjá um framkvæmd hátíðarinnar kærlega fyrir einstaklega farsæla samvinnu í gegnum árin en fyrst og fremst er Fiskidagurinn mikli risastórt heimboð íbúanna og þökkum við Dalvíkingum fyrir óviðjafnanlegar móttökur."