Stór og kostnaðarsöm viðhaldsverkefni hafa komið upp hjá Akureyrarbæ á árinu. Verkefnin hafa verið í gangi í sumar og af þeim hlotist mikill kostnaður. Umhverfis- og mannvirkjaráð óskaði eftir viðauka upp á 150 milljónir króna fyrir liðinn viðhald fasteigna og hefur bæjarráð samþykkt þá upphæð með fjórum greiddum atkvæðum.
Áætlaðar voru tæplega 705 milljónir króna í viðhald á þessu ár og skiptist upphæðin í þrjá flokka, fastan kostnaður sem var 200 milljónir, ófyrirséð viðhald, 100 milljónir króna og fyrirséð viðhald upp á tæplega 405 milljónir króna. Talsverður fjöldi verkefna í flokknum ófyrirséð viðhald hafa óvænt komið upp og því ekki gert ráð fyrir þeim í kostnaðaráætlun. Að auki bætist við kostnaður sem hlaust vegna leikskóladeilda sem settar voru upp í tveimur grunnskólum, Oddeyrarskóla og Síðuskóla.