Þyrla sótti slasaða hjólreiðarmenn í Jökulsárgljúfur

Mynd tekin af vettvangi í dag.
Mynd tekin af vettvangi í dag.

Laust eftir hádegi í dag kom tilkynning til lögreglu og sjúkraflutningamanna á Húsavík um reiðhjólaslys við Jökulsárgljúfur. Þar hafi reiðhjólamaður fallið fram af kletti og þá hafði samferðamaður hans einnig slasast við að reyna að koma honum til aðstoðar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra

Þar sem ljóst var í upphafi að erfitt gæti verið að komast til þessara aðila voru björgunarsveitir frá Húsavík, Kópaskeri og Mývatnssveit ræstar út og síðar var Akureyri bætt í þann hóp. Þá var óskað eftir aðstoð frá þyrlu LHG.

Í ljós kom að þarna höfðu tveir hjólreiðamenn verið á leið sinni upp með Jökulsánni að vestanverðu þegar annar þeirra féll af hjóli sínu og fram af klettabrún og lenti í gróðri og grjóti þar neðan við, talsvert fall. Viðkomandi aðili var með góðri meðvitund allan tímann en þurfti aðstoðar við.

Sjúkraflutninga- og björgunarsveitarmenn voru komnir til hjólreiðamannanna um 2 klst. síðar og hlúðu að þeim. Úr varð að þyrla LHG hífði þann slasaða upp til sín af þeim stað sem viðkomandi lá á í gróðrinum undir klettabeltinu.

Voru báðir hjólreiðamennirnir síðan fluttir með þyrlu LHG til Akureyrar til frekari aðhlynningar.

Nýjast