20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Aðalgeir Heiðar Karlsson - Minningarorð
Aðalgeir Heiðar Karlsson fæddist 1.október 1948 á Húsavík. Hann var sonur útgerðarhjónanna Heru Sigurgeirsdóttur f. 22. maí 1916, d. 8. ágúst 1999 og Karls Óskars Aðalsteinssonar, f. 8. maí 1912, d. 24. jan. 1982. Aðalgeir var yngstur fimm systkina sem eru í aldursröð: Sigurbjörg Guðrún, f. 6. feb. 1935, d. 26. maí 2019, Sigrún Ólöf f. 22. jan. 1937, Aðalsteinn Pétur f. 27. okt. 1943, d. 15. júlí 2008 og Óskar Eydal f. 27. nóv. 1944, d. 14. apríl 2017. Karl Óskar Geirsson f. 28. nóv. 1955, sonur Sigrúnar, ólst einnig upp í Höfða og var alltaf eins og einn af systkinunum.
Alli var af mikilli sjómannaætt en var mjög lítið á sjó en vann landvinnu. Hann var snöggur til að ráða sig til vinnu þegar Norðurverk hóf störf við gerð Laxárvirkjunar 3 og vann þar fram að verklokum sem bílstjóri á borbíl og sem sprengju sérfræðingur. Við Laxárvirkjun kynnist hann eftirlifandi eiginkonu sinni, Guðnýju Heiðveigu Gestsdóttur, f. 13.júní 1952. Guðný er fædd og uppalin í Múla í Aðaldal, foreldrar hennar voru Heiðveig Sörensdóttir, f. 6.maí 1914, d. 2.mars 2002 og Gestur Kristjánsson, f. 10.nóvember 1906, d. 9.ágúst 1990. Strax vorið eftir þau kynni flutti Aðalgeir í Múla, fór að taka þátt í búskapnum af fullum krafti ásamt því að sinna vinnu við Laxárvirkjun. Aðalgeir og Guðný opinberuðu um páskana 1971 og giftu sig 2. apríl 1972. Þau hófu félagsbúskap ásamt foreldrum Guðnýjar og keyptu síðar af þeim eignir þeirra í Múla eftir að þau hættu búskap árið 1986 og fluttu til Húsavíkur. Aðalgeir og Guðný bjuggu alla tíð í Múla meðan heilsan leyfði. Þau seldu jörðina í sumarið 2021 og fluttu til Akureyrar.
Alli og Guðný í Múla voru með fjölmörg börn í sumardvöl í sveit og eins voru þau með fósturbörn bæði til skemmri og lengri tíma. Þrjú af þeim börnum fengu varanlegt aðsetur hjá þeim hjónum í Múla og má svo sannarlega segja að þau hafi dottið í lukkupottinn, Ólafur Svanur Ingimundarson, f. 3.ágúst 1965, Einar Jóhann Sigurðsson, f. 6. ágúst 1983 og Aðalheiður Ágústa Jónsdóttir, f. 2. október 1987. Ólafur Svanur er kvæntur Emmu Gísladóttur, f. 17.maí 1967 og eiga þau tvo syni Gísla Ólaf og Jón Aðalgeir og 6 barnabörn. Einar Jóhann er kvæntur Þórhildi Einarsdóttur, f. 31. ágúst 1983, og eiga þau tvö börn saman Kristján Guðna og Heiðveigu Halldóru. Einar á einnig dóttur úr fyrra sambandi, Lilju Dögg, f. 3.mars 2005. Aðalheiður er gift Sigmundi Birgi Skúlasyni, f. 19.maí 1982 og eiga þau þrjú börn Heiðar Inga, Fannar Atla og Margréti Guðnýju.
Aðalgeir lést á hjúkrunarheimilinu Lögmannshlíð 12.júlí s.l. og útför hans fór fram miðvikudaginn 24.júlí kl 14:00 frá Grenjaðarstaðarkirkju í Aðaldal.
Elsku afi okkar, við vitum ekki hvernig okkur á að líða, þetta er allt svo skrýtið.
Heiðar Ingi segir: ,,Takk fyrir að vera afi minn, þú varst mér mjög góður og skemmtilegur og gaman að vera með þér í sveitinni og gera allskonar úti og í fjárhúsunum. Mér fannst frábært að fá tækifæri til að upplifa sveitarlífið og þú kenndir mér margt og mikið. Ég mun sakna þín og ég mun aldrei gleyma þér, takk fyrir allt elsku afi“.
Fannar Atli segir: ,,Ég man alveg allskonar, það var gaman að fara með þér í dráttarvélina og vera með þér úti í fjárhúsunum og hjálpa þér að gefa kindunum matinn sinn”.
Margrét Guðný segir: ,,Afi, láttu þér líða vel hjá Guði, ég sé þig þegar ég kem til englanna og þá færðu knús frá mér”.
Við kveðjum þig í hinsta sinn með miklum söknuði, en við vitum að þú ert kominn á góðan stað í Sumarlandinu. Við munum alltaf eiga minningarnar og sérstaklega tímann í sveitinni með þér og ömmu en þar áttum við margar frábærar stundir og Múli var á tímabili okkar annað heimili.
Nú verðum við þig að kveðja
fáum ekkert um það að velja.
Í hjarta okkar þú verður
þaðan aldrei hverfur.
Við minningu þína geymum
og aldrei gleymum.
Elsku hjartans afi okkar
þá kveðjum við þig um sinn
og kyssum þína kinn.
Þú kvaddir okkur með brosi blíðu
þú stóðst með okkur í blíðu og stríðu.
Við þér munum aldrei gleyma
og stundanna í sveitinni
eins og gull við skulum geyma.
Þitt umhyggjusama hjarta
og öll hlýju faðmlögin
sem þú gafst okkur alltaf.
Við eigum sérstakan stað
í hjörtum okkar
sem er aðeins ætlaður þér.
Höf: Aðalheiður Ágústa Jónsdóttir
Takk fyrir allt elsku afi, við elskum þig.
Ástarkveðjur, Heiðar Ingi, Fannar Atli og Margrét Guðný Sigmundsbörn.
Á fallegum sumardegi, þegar sólarlagið sameinast sólarupprisu er komið að kveðjustund. Við kveðjum Alla í Múla. Í raun kvöddum við hann fyrir nokkrum misserum. Elli kerling er harður húsbóndi. Alli var ekki nema svipur hjá sjón síðustu misserin, lítið líkur þeim Alla sem við munum eftir á árum áður. Dauðinn birtist okkur oft miskunnarlaus og skilur eftir sig djúp og illlæknanleg sár, en dauðinn á sér aðra mynd, bjarta og líknandi og þannig trúum við að hann hafi birst Alla.
Alli var fæddur á Húsavík úr sjómannsfjölskyldu. Harðduglegur og ósérhlífinn. Hann vann við Láxárvirkjun þegar hann kynnist frænku okkar og eftir það var ekki aftur snúið. Alli varð ekki sjómaður heldur bóndi. Þau bjuggu í Múla nánast alla sína tíð, en síðustu misserin á Akureyri.
Margar okkar bestu minningar í æsku eru frá Múla, Aðaldal hjá ömmu Heiðveigu og afa Gesti og um leið hjá Guðnýju og Alla. Börn löðuðust að Alla, eitthvað traust og heiðarlegt við hann, því ekki var hann að flaðra upp um börn eða fólk almennt. Hann kom til dyranna eins og hann var klæddur, sagði það sem honum bjó í brjósti. Þurfti aldrei að velkjast í vafa um hug hans til manna og málefna. Í æskuminningunni var ætíð sól og blíða í Aðaldalnum. Alli var alltaf að brasa, langir vinnudagar hjá þeim hjónum. Sinna þurfti skepnum og búi daglega og síðan voru tarnir í sauðburði, girðingavinnu, heyskap, réttum og göngum. Alli undi hag sínum vel í Múla og var ekkert að flandrast erlendis að óþörfu. Hann var eðlisgreindur og rökfastur, víðlesinn og fylgdist vel með líðandi stundu.
Við systur minnumst þess ekki að hafa þurft að gera nokkurn skapaðan hlut í Múla en við fengum að gera ýmislegt, á þessu tvennu er eðlismunur. Við fengum að gefa heimalingunum og knúsa kálfana, fengum að moka flórinn í fjósinu, þvælast fyrir í heyskap og sækja kýrnar. Ná í nýorpin egg hjá hænunum þótt okkur líkaði ekki aldeilis við hanann. Alli kom við í drullubúinu okkar á milli verka og «borðaði» drullukökur skreyttar með sóleyjum. Við tókum ráðgjöf misvel en Heiðrún þótti ekki sérstakur kúasmali. Þegar þau reyndu að leiðbeina hvernig best væri að reka blessaðar kýrnar, sagði hún (smámælt) «Ég vek þæþ eins og méþ sýnist.» Reyndar rötuðu þær sjálfar heim og þessi litli kúasmali ógnaði þeim lítið.
Á þessum tíma var Ólafur Svanur einnig í Múla en hann var þeim hjónum sannarlega sem besti sonur og við systur litum upp til hans. Hann var auk þess betri verkmaður en við systur. Síðar bættust Einar Jóhann og Aðalheiður Ágústa í hópinn og eru þessi þrjú ásamt börnum og barnabörnum ríkidæmi þeirra frænku og Alla.
Alli var sannarlega einstakur og við kveðjum hann með söknuði en fyrst og fremst með virðingu og hlýju.
Elsku Guðný, vegur sorgarinnar er vissulega langur og strangur en hvorki ófær né endalaus. Við sendum Óla, Emmu, Einari, Tótu, Aðalheiði, Simma, börnum og barnabörnum okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Hvíl þú í friði elsku Alli. Hafðu þakklæti fyrir allt og allt.
Heiðrún Jónsdóttir
Díana Jónsdóttir
Aðalgeir Heiðar Karlsson fæddist 1.október 1948 á loftinu í gamla Höfða á Húsavík. Hann var sonur útgerðarhjónanna Heru Sigurgeirsdóttur og Karls Óskars Aðalsteinssonar. Aðalgeir var yngstur fimm systkina sem eru í aldursröð: Sigurbjörg Guðrún, Sigrún Ólöf, Aðalsteinn Pétur og Óskar Eydal. Sigrún Ólöf er ein eftir af systkinunum. Karl Óskar Geirsson, sonur Sigrúnar, ólst einnig upp á Höfða og var alltaf eins og einn af systkinunum.
Alli ólst upp eins og aðrir unglingar á Húsavík við leik og störf neðan við bakkann. Sautján ára gamall var hann farinn að búa með kindur á Húsavík. Hann vaknaði kl. 5 á morgnana til að gefa fénu, mætti svo til vinnu kl. sjö. Einn morgun klukkan fimm sér hann mikinn reyk leggja út um alla glugga á húsi bróður síns og fjölskyldu hans. Alli hljóp út, sá þau öll samankomin í glugga í risinu. Hann vissi um skjólborð af vörubíl þar rétt hjá, sótti þau og reisti upp við húsið. Hann klifraði upp skjólborðin, fór fyrst niður með eins árs gamalt barn tók svo næsta sem var þriggja ára og þá fimm ára barn og mágkonu sína. Þá kom bróðir hans síðastur niður. Þá var húsið orðið alelda.
Alli var af mikilli sjómannaætt en þar sem hann var afar sjóveikur þá kaus hann vinnu í landi frekar. Hann réð sig til vinnu við Laxárvirkjun í Aðaldal þegar Norðurverk hóf þar störf við gerð Laxárvirkjunar 3 og vann þar fram að verklokum, bæði sem bílstjóri á borbíl og sem sprengju sérfræðingur. Við Laxárvirkjun kynnist hann Guðnýju sinni og strax vorið eftir þau kynni flutti Aðalgeir í Múla, fór að taka þátt í búskapnum af fullum krafti ásamt því að sinna vinnu við Laxárvirkjun. Aðalgeir og Guðný opinberuðu um páskana 1971 og giftu sig 2. apríl 1972. Þau hófu félagsbúskap ásamt foreldrum Guðnýjar og keyptu síðar af þeim eignir þeirra í Múla eftir að Heiðveig og Gestur hættu búskap árið 1986 og fluttu til Húsavíkur.
Múla hjónin voru bæði með kýr og kindur, eins áttu þau líka nokkra hesta og hænur um tíma. Aðalgeir var heimakær, tók lítið þátt í félagsstörfum fyrir utan félagsskap bænda og var m.a. formaður Fjárræktarfélags Aðaldæla um tíma. Hann var ekki mikið fyrir það að sækjast sjálfur eftir félagsskap en tók yfirleitt vel á móti gestum sem bar að garði og hafði gaman af því að sitja við eldhúsborðið heima í Múla og ræða ýmis málefni.
Eftir að Alli flutti í Múla þá gekk hann til rjúpna á haustin en Guðný var fljót að venja hann af því með því að passa að hann ætti aðeins þrjú pör af vettlingum því þannig lá í því að Alli týndi vettlingunum sínum í hverri ferð svo ferðirnar urðu aldrei fleiri en þrjár um hvert haust. Á síðari árum var hann oft mjög reiður á haustin þegar hann heyrði skothvellina glymja hingað og þangað um sveitina, og var jafnvel hræddur um að vera skotin á kvöldin þegar hann var á leiðinni heim frá ánni: ,,Þessir helvítis hálfvitar hefðu ekki hugmynd um hvaða endur þeir væru að skjóta, hvort sem þær væru friðaðar eða ekki og skjóta bara það sem þeim sýnist“. Og síðustu ár síðari tók hann þá ákvörðun að hleypa aldrei nokkrum manni inn á sinn land til veiða.
Hann gat átt það til að vera nokkuð fljótfær. Eitt sinn að vetrarlagi voru Alli og Guðný að horfa á fótboltaleik heima í gamla húsi. Guðný nennti ekki lengur að horfa og fór austur í fjós en þegar hún kom þar inn þá sá hún að gráskjöldótt kvíga var að því komin að hengja sig í básnum. Guðný hljóp til baka heim í hús og kallaði ,,Alli, Alli! Gráa kvígan er að hengja sig“ og hljóp aftur af stað upp í fjós. Guðný var komin hálfa leið að fjósinu þegar Alli spýttist á fullri ferð fram úr henni á sokkunum og sagði um leið: ,,Hef ég ekki einu sinni tíma til að fara í stígvélin!?“...
Alli var mjög handlaginn, smíðaði bæði úr timbri og járni ásamt handlangaranum sínum henni Guðnýju. Hann var einstaklega laginn með rafsuðutækið og smíðaði heila og hálfu stíurnar og innréttingar í útihúsunum, bæði kálfafjósið og skemmuna sem var byggð sem fjárhús eftir að kúabúskap lauk árið 2006. Þá var ekkert annað hægt en að auka við féð því ekki gat hann haft ofan af fyrir sjálfum sér með örfáar kindur fyrst hann þurfti ekki lengur að fara í fjós til að mjólka tvisvar á dag allann ársins hring.
Hann Aðalgeir í Múla var alveg einstakur persónuleiki. Hannkunn öll íslensk blótsyrði og notaði þau óspart, bölvaði ef eitthvað gekk ekki upp og krossbölvaði jafnvel við girðingakeng sem fór eitthvað illa í staur og þá sagði Guðný oft: ,,Æj Alli minn, hættu þessu” og fékk þá svarið ,,Nei!” með mikillri áherslu og þar við sat.Það var heldur ekkert nauðsynlegt að hafa fólk í kringum sig þegar hann bölvaði og átti oft heilu og hálfu samræðurnar við sjálfan sig og það sjaldan á lágu nótunum.
Hugsanalestur....Alli gerði oft ráð fyrir að fólk vissi hluti sem hann vissi - eitt sinn kom Alli heim í eldhús og sagði ansi hvass: ,,Ég er búin að standa upp á stöpli og öskra í 20 mínútur og þið heyrið ekki neitt!“ en þá var hann eitthvað að bardúsa með kindur upp á stöpli og mannskapurinn heima við átti að lesa það hugskeyti líkt og mörg önnur.
Hann var líka afskaplega fljótur að skipta um skoðun og oft var það þannig að hann kom með plan um að gera eitthvað og rauk niður í útihús og ef að þeir aðilar sem áttu að aðstoða hann voru ekki mættir tímanlega þá fór hann bara í önnur verkefni og svaraði til: ,,Nú! Þú varst ekki komin svo ég fór bara að gera þetta!“.
Alli var mjög sterkur. Eitt sinn tók hann heyrúllu ofan af Einari fóstursyni sínum, hann lyfti því sem hann ætlaði sér að lyfja hverju sinni og ef hann gat það ekki þá fékk hann kerlingargarminn sinn til að aðstoða sig með það sem upp á vantaði til að klára verkið. Þess má geta að þessi stóri og sterki maður var alveg rosalega hræddur við mýs, og það skipti engu máli hvort þessar mýs væru lifandi eðadauða. Kettirnir fengu engar sérstakar þakkir frá honum þegar þeir höfðu raðað dauðu músunum upp í miðjum gangveginum inn í fjós! Einu sinni var mús mætt í hjónaherbergið í gamla húsinu og hún hékk þar í gluggatjöldunum og þá var Alli snöggur með ráð og sagði: ,,Heyrðu ég sæki bara haglabyssuna og skýt hana” en Guðný samþykkti það nú ekki.
Hann var skapmikill maður, stoltur og oft með eindæmum þrjóskur og þver ef hann ætlaði sér eitthvað. Hann var einnig mjög trúaður þótt hann léti ekki mikið á því bera við aðra. Undir harðneskjulegu yfirborði leyndist allt annar maður sem ekki margir fengu að kynnast vel. Hann lagði mjög mikið á sig við að lækna dýr og gætti öryggi barna af mikilli umhyggju.
Alli og Guðný í Múla voru með fjölmörg börn í sumardvöl í sveit – og eins voru þau með fósturbörn bæði til skemmri og lengri tíma. Þrjú af þeim börnum fengu varanlegt aðsetur hjá þeim hjónum í Múla. Ólafur Svanur er kvæntur Emmu Gísladóttur og eiga þau tvo syni þá Gísla Ólaf og Jón Aðalgeir og 6 barnabörn. Einar Jóhann er kvæntur Þórhildi Einarsdóttur og eiga þau tvö börn saman Kristján Guðna og Heiðveigu Halldóru. Einar á einnig dóttur úr fyrra sambandi hana Lilju Dögg. Aðalheiður er gift Sigmundi Birgi Skúlasyni og eiga þau þrjú börn Heiðar Inga, Fannar Atla og Margréti Guðnýju. Eitt er víst að það má svo sannarlega segja að þau þrjú hafi laglega dottið í lukkupottinn að fá heimili hjá Guðnýju og Alla í Múla.
Það var mikill kattarbúskapur í Múla og það skal tekið fram að það var ekki með samþykki allra ábúenda en Alli og dóttir hans, Aðalheiður, voru bæði mjög miklir kattar unnendur. Þá fór yfirleitt heill vinnudagur á haustin í að týna niður allskonar brýr og bæli í gömlu fjárhúsunum sem Aðalheiður hafði dundað sér við að smíða svo féð kæmist inn fyrir veturinn. Stigvaxandi fjölgun í kattarhópnum var óhjákvæmleg þar sem kettirnir voru ekki eingöngu karlkyns. Það kom þá reglulega sá tími að það bara þurfti að fækka í hópnum, þá fóru Allir og Guðný af stað yfirleitt í skjóli nætur til að týna greyin saman. Einu sinni voru hjónin við í heyskap upp á stöpli og það vantaði kraftfóður svo þau ákváðu að renna inn á Húsavík til að sækja það. Á meðan þau voru í burtu þá vaknaði Aðalheiður og fór út um allt að leita að foreldrum sínum því hún var viss um það að þau væru að lóga köttunum. Daginn eftir var þetta mál rætt og Aðalheiður í miklu uppnámi og svarið frá Alla var einfaldlega: ,,Hvernig var sprettan á stöplinum elskan” en Aðalheiður sagðist ekki hafa séð neina sprettu fyrir öllum tárunum og gat ekkert sagt til um það!
Alli var með ágætis húmor á köflum og oftar en ekki snérust brandarnir hans meira um ófarir annara frekar en hans eigin en hann var samt oft með húmor fyrir sjálfum sér líka. Hann átti það til að plata krakkana til að athuga hvort það væri komið rafmagn á rafmagnsgirðingar sem hann var að tengja. Í eitt skiptið var annar bóndi á næsta bæ vitni af þessu og sagði: ,,það er ekki von að þessi vesalingur stækki þegar þú lætur hann alltaf athuga með rafmagnið á girðingunni“
Lokaorð ......
Aðalgeir og Guðný bjuggu alla tíð í Múla meðan heilsan leyfði.Árið 2008 fékk hann krabbamein sem reyndist erfitt og eiginlega náði hann sér aldrei almennilega eftir það. Í þessum veikindum kom sér vel að eiga góða og hjálpsama nágranna og sérstaklega reyndist Sveinbjörn á Búvöllum vel þetta ár. Krabbameinið tók sinn toll en Alli lét það ekki stoppa sig og hélt áfram búskap ótrauður. Almennt heilsufar og þrek fór þverrandi með hverju árinu sem leið og eftir 2015 var alveg komin sú umræða við eldhúsborðið heima í Múla að hætta búskap á meðan jörðin væri enn vel hirrt og í góðu ásigkomulagi en Alli vildi ekki heyra slíkar hugrenningar. Síðustu tvö árin í búskapnum voru mjög erfið, Guðný gekk í öll verk ásamt börnunum þegar þau voru heima við og Alli reyndi að taka sínar tarnir eftir því sem hann hafði þrek til. Að lokum varð hann að játa að þau gætu ekki sinnt búinu lengur og sú ákvörðun var tekin að selja jörðina sumarið 2021 og hjónin fluttu til Akureyrar.
Mæðgur i Múla
Takk fyrir allt Alli
Það sem þú kenndir mér er ómetanlegt og ég mun aldrei gleyma stundunum sem við áttum saman við að gefa féinu, girðingavinnunni upp á stöpli og einnig þær stundir sem við fórum á gamla að skoða féið og virða fyrir okkur girðingar hér og þar á túnunum Þú varst svo ótrúlega stoltur af barnabörnunum þínum og þeim fannst svo gott að hoppa upp í afa faðm og fá gott knús eða gott klapp ofan á hausinn
Þú sýndir mikinn áhuga á því sem þau tóku sér fyrir hendur og þeim fannst það dýrmætt
Það er síðan ein saga af þér sem mér finnst lýsa þér mjög vel og sýna hvað þú hafðir mikinn húmor. Það var í skírnarveislunni hjá honum Fannari Atla og við vorum að útskýra af hverju við völdum nafnið Fannar. Ástæðan fyrir að við völdum Fannar frekar en eitthvað annað nafn var að það snjóaði kvöldið sem hann kom og þess vegna kom nafnið út frá orðinu fönn. Þá hallaðir þú þér að Fannari og sagðir við hann "vertu feginn að það var ekki slydda þegar þú fæddist" Þarna sprakk allur mannskapurinn úr hlátri og þetta sýndi húmorinn þinn í réttu ljósi
Annars vil ég segja við þig Alli minn að ég mun sakna þín mjög mikið og það verður skrítið að geta ekki farið til þín og spjallað um íslenska landsliðið í hvaða boltagrein sem er og hvað þér finnst um þennan og hinn pólitíkus hér á þessu landi
Megirðu hvíla í friði, þín verður saknað af okkur öllum
Kær kveðja þinn tengdasonur Sigmundur (Simmi)