Mikið hjartans mál að vandað sé til verka við kennslu barna

Allur hópurinn með verðlaunin eftir frábæran dag     Myndir aðsendar
Allur hópurinn með verðlaunin eftir frábæran dag Myndir aðsendar

„Árangurinn byggist fyrst og fremst á því hvað nemendur er áhugasamir, jákvæðir og vinnusamir, en það allt verður að vera til staðar ef árangur á að nást,“ segir Katrín Mist Haraldsdóttir sem ásamt Ingibjörgu Rún Jóhannesdóttur á og rekur DSA Listdansskóla Akureyrar. Stúlkur úr skólanum tóku á dögunum þátt í undankeppni heimsmeistaramótsins Dance World Cup í Borgarleikhúsinu. Þær komu heim með gull í flokknum söngur og dans auk þess sem fimm silfur og tvö brons. Yngsti keppandinn var einungis 6 ára og kom norður með þrenn verðlaun. Heimsmeistaramótið verður haldið í Prag í sumar, og hafa öll atriði DSA unnið sér inn keppnisrétt. Þetta er í fimmta sinn sem DSA - Listdansskóli Akureyrar tekur þátt í Dance World Cup en þar koma saman rúmlega 100.000 börn frá 50 löndum. 

  Rakel Heiða 9 ára og Agnes Emma 6 ára að stíga inn á svið í flokki söng og dans þar sem þær fengu 84,3 stig fyrir. 

 

„Mér finnst mikilvægast að krökkunum finnist gaman og að þeim líði vel. Ef það er þannig þá er auðveldara að hjálpa þeim að ná árangri. Jákvæðir kennsluhættir hafa mikið að segja og gildir um allan aldur. Ef það tekst að byggja upp gott sjálfstraust hjá krökkunum og búa til traust innan hópsins verða þeir hugrakkari við að takast á við æfingar og það skilar sér á sviðinu,“ segir Katrín Mist. Hún þakkar góðan árangur yndislegum og áhugasömum nemendum en einnig frábærum og vel þjálfuðum kennurum. „Þetta samspil hefur mikið að segja þegar kemur að árangri.“

Byrjaði dansnám 18 mánaða gömul

Katrín Mist er menntuð leikkona, danshöfundur og söngkona. Hún rekur DSA Listdansskóla Akureyrar sem fyrr segir og DSA heilsu. Hún er fædd og uppalin á Akureyri en hefur undanfarin ár starfað sem leikkona við Borgarleikhúsið í Reykjavík ásamt því að reka DSA og gefa út tónlist. „Ég byrjaði mitt dansnám mjög ung, hjá mömmu minni í Dansstúdíó Alice,“ segir hún, en móðir hennar var Helga Alice Jóhanns. Hún stofnaði fyrsta listdansskólann á Akureyri í kringum árið 1975. Honum var lokað þegar hún lést árið 1992. Katrín Mist opnaði skólann að nýju fyrir 10 árum, 2014, með nafninu DSA, sem stendur fyrir Dansstúdíó Alice. „Ég hef svo dansað allar götur síðan ég byrjaði um það bil 18 mánaða gömul,“ bætir hún við, en hún hefur sótt nám á Íslandi, London og New York og er með háskólagráðu í leiklist.  Eiginmaður hennar er Jóhann Axel Ingólfsson og eiga þau 6 ára gamla dóttur, sem fékk nafn ömmu sinnar, Helga Alice. Hún hóf sitt dansnám í Dansstúdíó Alice á svipuðum aldri og mamma sín, um 18 mánaða gömul.

Elskar fjölbreytta daga með marga bolta á lofti

„Ég hef alla tíð brunnið fyrir sviðslistir og elska fjölbreytta daga þar sem ég er með marga bolta á lofti, listamannslífið hentar mér því mjög vel. En þó ég sé mikið fiðrildi þá elska ég líka exel skjöl og næ vel að sameina þessa ólíku eiginleika við rekstur DSA. Ég fæ góða útrás fyrir sköpunarþörfina í því að búa til dansverk þar sem ég fer inn í minn eigin ævintýraheim og bý til sögur og heilu örleikritin í einu dansnúmeri. Það er algjör draumur og enn betra að geta gert það með áhugasömum nemendur og þannig miðlað þekkingu og færni sem maður hefur um árin sankað að sér,“ segir Katrín Mist.

Hún kveðst einnig hafa miklar skoðanir á kennslutækni. „Það er mér mikið hjartans mál að vandað sé til verka þegar kemur að kennslu barna og unglinga ekki síður en fullorðinna  og ekki bara þegar kemur að líkamlegum æfingum, það verður líka að sinna andlega þættinum vel. Ég tek traustið sem okkur kennurum er gefið mjög alvarlega. Það skiptir mig miklu máli að við leggjum okkar af mörkum, ekki bara við að vanda okkur að búa til góða dansara, heldur einnig að skapa sterka einstaklinga.“

Auk þess að reka DSA Listdansskóla Akureyrar reka þær Ingibjörg Rún einnig DSA heilsu, sem er heilsuræktarstöð fyrir konur. Katrín Mist segir að á vegum Dansstúdíó Alice hafi á sinni tíð verið mjög öflug eróbik í boði og þær Ingibjörg bjóði hafi verið að bjóða uppá Barre námskeið fyrir fullorðna við góðar undirtektir frá 2015. „Við fundum fyrir miklum áhuga hjá konum að fá fleiri tíma þannig að fyrir fáum árum ákváðum við að taka þetta bara alla leið og bjóða upp á fjölbreytta og skemmtilega heilsuræktartíma fyrir fullorðna meðfram rekstri skólans og það hefur tekist mjög vel.“

   Katrín Mist Haraldsdóttir og  Ingibjörg Rún Jóhannesdóttir eiga DSA Listdansskóla Akureyrar.

Skólinn aldrei verið fjölmennari

Um það bil 200 til 250 nemendur stunda nám við DSA Listdansskóla Akureyrar um þessar mundir. Katrín Mist segir að strax og hún opnaði skólann árið 2014 hafi hún fundið fyrir miklum áhuga og töluvert fleiri nemendur skráðu sig en hún átti von á.  „Ég var 25 ára gömul, nýútskrifuð úr leikaranámi  og það má eiginlega orða það svo að ég hafi stokkið á ástríðunni út í djúpu laugina,“ segir hún en skólinn hefur stækkað jafnt og þétt og aldrei verið  fjölmennari en nú.  „Dansinn er í stöðugri sókn, bæði hér á Akureyri og annar staðar á landinu, það eru að koma fram nýir og nýir skóla um allt land sem sýnir hversu mikill og almennur áhugi er fyrir dansi. Ég veit ekki alveg hvað skýrir þennan mikla áhuga, en held að það hjálpi að dans hefur verið meira sýnilegur hin síðari ár í fjölmiðlum og einnig eigum við marga flotta dansara sem náð hafa góðum árangri,“ segir hún og nefnir m.a. íslenska landsliðið í listdansi sem vakið hafi athygli á Dance Word Cup.

„Það er líka svo frábært við dansinn að hann hentar öllum. Það eru svo margar íþróttir sem þróast í að verða afreksmiðaðar. Þegar krakkarnir verða eldri fer allt að snúast æ meira um að ná árangri í keppnum, en í dansi getur þú valið þér leið. Við stillum okkar námskrá þannig upp að hægt er að velja um að æfa tvisvar í viku eða bæta við sig tímum og vera í föstu prógrammi sem er meira krefjandi og hentar þá þeim sem stefna hærra. Þetta fyrirkomulag hefur reynst vel,“ segir Katrín Mist.

Partur af hópnum með atriðið Sound of Silence í flokki contemporary og lyrical. 

 

 

Nýjast