Akureyrarbær samþykkir fyrstu stafrænu brunavarnaáætlun landsins

Frá vinstri: Maron Berg Pétursson varaslökkviliðsstjóri SA, Grétar Þór Þorsteinsson sérfræðingur á s…
Frá vinstri: Maron Berg Pétursson varaslökkviliðsstjóri SA, Grétar Þór Þorsteinsson sérfræðingur á sviði brunavarna og slökkviliða hjá HMS og Gunnar Rúnar Ólafsson slökkviliðsstjóri SA. Mynd af heimasíðu HMS.

Brunavarnaáætlun Slökkviliðs Akureyrar til ársins 2027 var samþykkt í bæjarstjórn Akureyrar 2. febrúar sl. Áætlunin er fyrsta stafræna brunavarnaáætlun landsins og markar samþykkt hennar stór tímamót í stafrænni lausn fyrir slökkviliðin.

Stafrænar brunavarnaáætlanir eru unnar á einfaldari hátt en áður og munu veita betri yfirsýn yfir stöðu slökkviliða á landsvísu með samræmdum og samanburðarhæfum upplýsingum. Upplýsingarnar sem nýttar eru í áætlanirnar eru unnar í gegnum Brunagátt, sem er miðlæg gátt er Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) rekur fyrir rauntímaupplýsingar um stöðu slökkviliða og eru gögnin nýtt til forskráningar í áætlanirnar. Upplýsingum er viðhaldið í gáttinni og eru þær uppfærðar í samræmi við breytingar.

Samkvæmt Gunnari Rúnari Ólafssyni, slökkviliðsstjóra á Akureyri, munu stafrænar brunavarnaáætlanir meðal annars auðvelda slökkviliðinu að bregðast við breytingum í samfélaginu í rauntíma. Gunnar segir einnig að stafræna brunavarnaáætlunin sé auðveldari í vinnslu og að aðferðarfræðin á bak við hana sé betri en hjá fyrri brunavarnaáætlunum, sem auðveldi slökkviliðum við að leggja fram áhættumat og reikna út viðbragðstíma.

Slökkvilið Akureyrar er eina starfandi atvinnuslökkviliðið á Norðurlandi. Starfssvæði þess er 2.861 km2 og er íbúafjöldinn á svæðinu 22.329. Starfsstöðvarnar eru þrjár, á Akureyri, í Hrísey og Grímsey. Árið 2023 fór slökkviliðið í 135 útköll og var 50% af þeim útköll vegna elds. 12% af útköllum voru í F1 forgangi, en er það hæsti forgangur útkalla.

Samkvæmt áhættumati Slökkviliðs Akureyrar, sem er í nýsamþykktri brunavarnaáætlun, hefur áhætta aukist í sveitarfélaginu. Helstu ástæður þess séu ný fyrirtæki sem opnað hafa þar, auk fleiri ferðamanna og komu skemmtiferðaskipa. Einnig hafi áhættur vegna gróðurelda aukist.

Heimild  akureyri.is

Nýjast