20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Tillaga að tröppum niður Stangarbakkann á Húsavík
Tillaga að nýjum tröppum á gönguleiðinni af Stangarbakkanum á Húsavík ofan í fjöru litu nýlega dagsins ljós. Tillagan er unnin af fyrirtækinu Faglausn sem vann þær með danskri arkitektastofu Arkitektladen. Eigandi hennar er Øjvind Andersen arkitekt sem Almar Eggertsson einn eigenda Faglausnar kynntist á námsárum sínum í Danmörku.
Staðsetningin er í suðurenda hafnarsvæðisins og myndar tengingu upp á upphitaðan göngustíg sem liggur suður í bæinn. „Það er virkilega fallegt útsýni þarna og veðursælt,“ segir Almar. Og bætir við að hönnun Øjvinds og Arkitektladen á stiganum sé mjög skemmtileg, hún falli vel að landinu og geti um leið orðið að frábærum áningarstað.
Starfsfólk Faglausna
Hinsta óskin að koma til Íslands
Eiginkona Øjvinds, Dorthe sem átti við veikindi að stríða átti sér sína hinstu ósk, sem var að ð koma til Íslands og varð Húsavík fyrir valinu sem áfangastaður í ferðinni. Hún var mjög veik á þeim tíma sem ferðin stóð yfir þannig að á meðan fjölskyldan fór í ógleymanlega hvalaskoðun beið Dorthe rétt sunnan við „stigann“ og málaði þar mynd. Dorthe lést í janúar síðastliðnum.
Tillögu hefur verið skilað inn til Norðurþings en Almar segist ekki vita hvar í ákvörðunarferlinu málið sé, en vonast að sjálfsögðu til að Faglausn fái að fylgja verkefninu eftir til enda.
Faglausn tekur að sér fjölbreytt verkefni
Fyrirtækið Faglausn var stofnað árið 2009 á Húsavík og hefur nú fyrir nokkru einnig opnað skrifstofu á Akureyri Fyrirtækið er vaxandi en þar starfa nú 6 starfsmenn, byggingarfræðingar og tækniteiknarar.
Faglausn er hönnunar- og ráðgjafa, sér um allar teikningar frá fyrstu tillögu að framkvæmd. Faglausn býður einnig verkumsjón og eftirlit með framkvæmdum, kostnaðaráætlanir, fasteignaskoðanir og eignaskiptayfirlýsingar svo eitthvað sé nefnt.
Svona þekkja lesendur svæðið í dag