Hagkvæmast að loka leikskólum í júlí þegar minnsta nýtingin er

Vandræði hafa skapast við mönnun á Sjúkrahúsinu á Akureyri þegar margir óska eftir að taka sumarleyf…
Vandræði hafa skapast við mönnun á Sjúkrahúsinu á Akureyri þegar margir óska eftir að taka sumarleyfi á sama tíma eða um leið og leikskólar eru lokaði. Fræðslu- og lýðheilsuráð segir að hagkvæmast sé að loka þegar nýting sé minnst um mitt sumar. Mynd á vef Akureyrarbæjar

Fræðslu- og lýðheilsuráð getur ekki orðið við beiðni sem barst fá mannauðsstjóra Sjúkrahússins á Akureyri um endurskoðun á lokun leikskóla bæjarins yfir sumarmánuðina. „Minnsta nýting er á leikskólaplássum í júlí og er það hagkvæmast fyrir rekstur og þjónustu leikskólanna að loka í kringum þann tíma,“ segir í bókun fræðslu- og lýðheilsuráðs við erindinu.

Flestir vilja sumarleyfi þegar leikskólar loka

Fram kemur í bréfi Erlu Björnsdóttur mannauðsstjóra SAk að leikskólar virðist allir loka í júlí og sitt hvort vikan í júní og ágúst fylgi á stundum með í sumum skólum. „Þetta hefur undanfarin ár valdið töluverðum vandræðum á Sjúkrahúsinu á Akureyri þar sem þeir foreldrar er eiga börn á leikskóla óska eðlilega eftir sumarleyfi á þeim tíma sem leikskólar eru lokaðir. Við það skapast erfiðleikar við mönnun á Sjúkrahúsinu á Akureyri því erfitt er að mæta orlofsóskum og þörfum svo margra á sama tíma,“ segir í erindi Erlu til ráðsins. Hún bætir við að sumarafleysingafólki hafi einnig sömu óskir, enda eigi það einnig í mörgum tilvikum börn á leikskólum.

Að færa börn tímabundið á milli leikskóla, sem er í boði sé vart valkostur því það skapi rót og vandamál fyrir börnin sem foreldrar vilji ekki.

„Við þurfum að nýta allt okkar sumarleyfistímabil frá 15. maí til 15. september í okkar starfsemi og hentugast væri fyrir okkur ef sumarlokun næði yfir lengra tímabil,“ segir hún og nefnir frá miðjum júní fram í miðjan ágúst. „Það er auðvitað mikilvægt að börnin fái samfellt frí  en það gæti verið auðveldra með þessum breytingum.“

 

Nýjast