GA smíðajárn og Ísrör opna á Lónsbakka við Akureyri
Þegar nær dregur vori munu hafnfirsku fyrirtækin Guðmundur Arason ehf., GA Smíðajárn og Ísrör ehf. opna sameiginlega verslunar- og lageraðstöðu á Lónsbakka á Akureyri í því húsi sem áður hýsti Húsamiðjuna um langt skeið. Fyrirtækin munu koma sér fyrir á um 400 fermetrum í austurhluta hússins auk rýmis á útisvæði fyrir vörur og afgreiðslu til viðskiptavina. Forsvarsmenn fyrirtækjanna segjast fullir tilhlökkunar að efla þjónustu fyrirtækjanna við Akureyringa og Norðlendinga. Þetta kemur fram í blaðinu Sóknarfæri sem Ritform gefur út.
Sterkir í stálinu
Bæði eiga fyrirtækin sér langa sögu í þjónustu við íslenskan iðnað. GA smíðajárn var stofnað af Guðmundi Arasyni, járnsmið, árið 1970 en hann rak áður Borgarsmiðjuna. Fyrirtækið er fjölskyldufyrirtæki enn þann dag í dag og sérhæfir sig í innflutningi og sölu á stáli. „Við erum sterk í stálinu, höfum á að skipa reyndu starfsfólki með mikla þekkingu á þörfum iðnfyrirtækja, verktaka og annarra sem þurfa á stáli að halda í starfsemi sinni. Við búum einnig að því að vera með mjög stóran stállager og getum þannig brugðist hratt við þegar viðskiptavinir þurfa á þjónustu okkar að halda,“ segir Þorsteinn Arnórsson, framkvæmdastjóri GA smíðajárns.
Síðustu ár hefur fyrirtækið verið með söluskrifstofu á Akureyri og tvo starfsmenn en sú starfsemi færist nú á Lónsbakka þar sem einnig verður stállager.
Allt fyrir lagnakerfin
Örn Sigurðsson, framkvæmdstjóri Ísrörs ehf., er einnig hæstánægður með þau tímamót að opna útibú á Akureyri. Ísrör er sömuleiðis rótgróið þjónustufyrirtæki við íslenskan iðnað, stofnað árið 1992 og sérhæfir sig í þjónustu við orkuveitur og verktaka.
„Á Lónsbakka komum við til með að leggja áherslu á að vera með góðan lager af efni fyrir lagnakerfi, þ.e. hitaveitur, vatnsveitur og fráveitur. Við bjóðum allt sem á þarf að halda; rör og hvers konar fittings, viðgerðarbúnað og verkfæri auk vara á borð við ídráttarrör, loka, inntaksþétt og annað sem lagnasviðinu tilheyrir. Það er sérstaklega ánægjulegt fyrir Ísrör að koma nú inn á markaðinn fyrir norðan,“ segir Örn.