Öll getum við sammælst um það að vilja börnunum okkar það besta. Við viljum hjálpa þeim að finna styrkleika sína og áhugasvið, efla sjálfstraust þeirra og hvetja þau áfram til þess að geta orðið virkir þátttakendur í samfélaginu.
Á Íslandi er skólaskylda. Hvergi annars staðar í þjóðfélaginu eru einstaklingar skyldugir að mæta. Ef vinnustaður barna skilar ekki tilskildum árangri og börnunum líður ekki vel þar, þá verður að endurskoða hlutina. Með sameiginlegu átaki getum við betrumbætt skólakerfið og gefið börnunum okkar tækifæri og framúrskarandi umhverfi til að blómstra. Ekkert barn á að þurfa að týnast á Íslandi sökum ósanngjarnra áskorana í opinberu kerfi sem allir verða að ganga í gegnum í tíu ár.