Gott silfur gulli betra

Sælir silfurhafar    Mynd Heilsuvernd  Hjúkrunarheimili
Sælir silfurhafar Mynd Heilsuvernd Hjúkrunarheimili

Heimilsfólkið á Hlíð  gerði það ekki endasleppt frekar en  fyrri daginn í hjólakeppninni World Road for Seniors sem er alþjóðleg keppni milli hjúkrunarheimila en Í gær fór fram verðlaunaafhending fyrir þátttöku í keppninni sem er nýlokið. 

Það voru sjö lönd sem tóku þátt í ár, 222 lið og 5670 manns. Hjólin á Hlíð voru þétt setin allan mánuðinn, eftir klukkan fjögur og um helgar. 82 einstaklingar lögðu sitt af mörkum fyrir liðið og hjóluðu samtals 10.979.4 km sem varð til þess að þau höfnuðu í 2. sæti!

Af þessum 82 einstaklingum voru átta sem hjóluðu yfir 100 km. Elst af þeim var Aðalheiður Einarsdóttir sem varð 98 ára í febrúar síðastliðnum og hjólaði hún 116 km. En hún var ein af nokkrum sem voru að taka þátt í keppninni í fimmta sinn. Fimm keppendur höfnuðu í efstu ellefu sætunum af öllum keppendum og fjórir þeirra hjóluðu yfir 1000 km. Tveir keppendur enduðu í þriðja sæti þ.e  þau  Snjólaug Jóhannsdóttir sem fór 1363 km og Bogi Þórhallsson sem fór 2451.5 km.

Metnaðurinn, krafturinn, gleðin og sprellið sem var við líði allan tímann varð til þess að þessum góða árangri var náð, en einnig sú mikla hvatning sem keppendur fengu frá starfsfólki í sjúkraþjálfun sem stóðu eins og klettar á hliðarlínunni og hvöttu fólk af miklum krafti.

Við óskum þeim öllum hjartanlega til hamingju með frábæran árangur, gott silfur, gulli betra á svo sannarlega vel við.

Frá þessu segir á Facebook síðu  Heilsuverndar Hjúkrunarheimilis, https://www.facebook.com/heilsuverndhjukrunarheimili  Þar má einnig sjá fleiri myndir frá verðlaunaafhendingu sem fram fór á Hlíð.

Nýjast