Hollenskt félag Baldvins Þorsteinssonar hefur gert samkomulag um kaup á eignum hollenska félagsins Öldu Seafood og þar með erlendri starfsemi Samherja Holding. Baldvin hefur verið forstjóri Öldu Seafood undanfarin ár.
Innlend og erlend starfsemi Samherja hf. var aðskilin í tvö sjálfstæð félög, Samherja og Samherja Holding árið 2018. Í framhaldi af því var dótturfélagi Samherja Holding, Öldu Seafood , með höfuðstöðvar í Hollandi, falinn rekstur starfseminnar sem tengist sjávarútvegi í Evrópu og Norður Ameríku. Eignarhaldið hélst óbreytt. Nú hefur verið gengið frá samkomulagi um sölu eigna Öldu Seafood til annars hollensks félags undir stjórn og í meirihlutaeigu Baldvins Þorsteinssonar. Mun hið nýja félag hér eftir fara með eignarhluti Öldu Seafood í sjávarútvegsfyrirtækjum í Evrópu og Norður-Ameríku.