Möguleikar opnast á enn frekari sókn

úðvík Arnarson framkvæmdastjóri VERDI og Ragnheiður Jakobsdóttir fjármálastjóri. „Við erum mjög bjar…
úðvík Arnarson framkvæmdastjóri VERDI og Ragnheiður Jakobsdóttir fjármálastjóri. „Við erum mjög bjartsýn og sjáum fyrir okkur að með þessari sameiningu opnast möguleikar á enn frekari sókn en verið hefur,“ segir hún.
Margrét Þóra Þórsdóttir
mth@vikubladid.is

 „Við erum mjög bjartsýn og sjáum fyrir okkur að með þessari sameiningu opnast möguleikar á enn frekari sókn en verið hefur. Það er greinilegur ferðaþorsti í landsmönnum og margir hafa huga á að bregða sér út fyrir landsteina,” segir Ragnheiður Jakobsdóttir fjármálastjóri hjá VERDI, nýju fyrirtæki sem varð til við sameiningu, hins gamal gróna fyrirtækis Ferðaskrifstofu Akureyrar og VITA Sport. Ferðaskrifstofan verður starfsrækt á tveimur stöðum, í miðbæ Akureyrar og í Reykjavík. Alls starfa 11 starfsmenn hjá VERDI, 6 á Akrueyri og 5 syðra.  Framkvæmdastjóri er Lúðvík Arnarson.

Byggir á gömlum grunni

Ferðaskrifstofa Akureyrar byggir á gömlum grunni, en Jón Egilsson stofnaði fyrirtækið árið 1947 og var það í fyrstu umboðsaðili fyrir Ferðaskrifstofu ríkisins. Félagið stofnað m.a. Strætisvagna Akureyrar á sínum tíma og var sérleyfishafi á ýmsum leiðum. Úrval-Útsýn tók við rekstri FA árið 1992 og var þá reksturinn eingöngu ferðaskrifstofa sem þjónustaði Íslendinga í ferðum erlendis. Árið 2001 seldi Úrval Útsýn rekstur ferðaskrifstofunnar á Akureyri og fékk hún þá aftur nafnið Ferðaskrifstofa Akureyrar og verið hefur í eigu Lúðvíks Arnarsonar og Ragnheiðar Jakobsdóttur sem eru stofnendur af VERDI Travel ásamt öðrum lykilstarfsmönnum.

FA er eina ferðaskrifstofan utan höfuðborgarsvæðisins sem hefur IATA leyfi, sem er alþjóðleg stofnun flugfélaga (International Air Transport Association), en það veitir aðgang að bókunum og útgáfu farmiða hjá flest öllum flugfélögum í heiminum.

VITA sport hefur skipulagt íþróttaferðir á vegum ferðaskrifstofunnar VITA, en söguna má rekja til ársins 1996 þegar fyrirtækið Tónsport ehf stofnað utan um rekstur íþrótta- og tónlistardeildar Úrvals-Útsýnar og var reksturinn undir vörumerki þess félags til ársins 2009, stofnað 1. ágúst það ár. Á þeim rúma aldarfjórðungi sem félagið hefur starfað, hefur það verið leiðandi í skipulagningu á íþróttaferðum fyrir Íslendinga.

Fjölbreyttar íþróttaferðir

Félagið hefur verið í forystu í skipulagningu æfinga- og keppnisferða bæði fyrir meistaraflokka og yngri flokka og unnið með ýmsum sérsamböndum innan ÍSÍ að skipulagningu ferða afreksfólks. Auk þess tekið þátt í mörgum stórskemmtilegum verkefnum og aðstoðað marga við ferðir á stórmót, til að fylgjast með íslensku íþróttafólki, eins og HM, EM og Ólympíuleikana. Félagið hefur einnig verið með ferðir á leiki í enska boltanum og hafa tugþúsundir Íslendinga farið í slíkar ferðir á vegum þess.

VITA sport hafa um árabil boðið upp á fjölbreytt úrval ferða frá Íslandi, góða þjónustu, úrval hótela og flugkost á samkeppnishæfu verði. „Við sameiningu sjáum við fyrir okkur að úr verði sterkt vörumerki, byggt á hæfu og reynslumiklu starfsfólki í ferðabransanum,“ segir Lúðvík Arnarson framkvæmdastjóri VERDI í tilkynningu. „Bæði fyrirtækin voru á ákveðnum tímamótum, ekki síst með tilliti til tæknilegra þátta eins og bókunarkerfis. Fyrirtækin hafa unnið náið saman um tíðina og það er góð reynsla af samstarfinu. Þegar hugmyndin kom upp, var báðum aðilum ljóst að til framtíðar væru mikil samlegðar áhrif af því að sameinast og búa til nýtt vörumerki og eitt félags úr þessum tveimur fyrirtækjum.“

Markmiðið að skapa sterkt vörumerki

Ragnheiður segir að áfram verði haldið á sömu braut og Ferðaskrifstofa Akureyrar var þekktust fyrir, en stór hluti af starfseminni felst í þjónustu við fyrirtæki um land allt varðar bókun og miðasölu á flugferðum. „Við munum að sjálfsögðu einnig halda áfram að veita okkar góða viðskiptavinahópi þjónustu en um árin hafa okkar tryggustu hópar verði m.a. saumaklúbbar, vinnustaðir, árshátíðarhópar og íþróttahópar sem eru á leið í sameiginlega ferð til útlanda. Hún segir að í boði verði pakkaferðir frá bæði Akureyrarflugvelli og Keflavíkurflugvelli, sólarlandaferðir og borgarferðir, en að auki verði VERDI áberandi líkt og áður í sölu íþróttaferða. Sem dæmi má nefna ferðir á leiki í enska boltanum, á HM i hestaíþróttum, handboltaferðir, Gothia Cup og Partille Cup auk fleiri ferða. „Til að byrja með er markmið okkar hjá Verdi að verða sterkt vörumerki á ferðaskrifstofumarkaði á Íslandi.“

Ragnheiður segir mikinn ferðahug í fólki eftir að heimsfaraldri lauk og margir á þeim buxum að ætla sér í ferðalög. Hún segir að tveir fyrstu mánuðir liðins árs hafi verið daufir enda faraldurinn enn í gangi, en eftir afléttingar hafi hjólin smám saman farið að snúast. „Það fór allt af stað og má segja að nú hafi ræst vel út, það lítur vel út með þetta ár og ekki hægt að segja annað en við séum bjartsýn á framtíðina,“ segir hún.

Nýjast