Af ferð og flugi á Norðurlandi.
Kannski mætti frekar segja sitjum heima engan þvæling um Norðurland því gul viðvörun er samkvæmt Veðurstofu Íslands. Öxnadalsheiði er lokuð og eru næstu fréttir þaðan að hafa kl 17. Vegurinn yfir Þverárfjall er ófær. Greiðfært er þó frá Akureyri og austur yfir enn sem komið er. Einungis éljagangur og hálkublettir á vegum og full ástæða til þess að fara varlega.
Allt innanlandsflug liggur niðri en veður sunnan heiða er mun verra en hér um slóðir, t.a.m. er Keflavikurflugvöllur lokaður og öllu flugi þar aflyst a.m.k. fram eftir degi. Þetta veður hefur þó ekki nokkur áhrif á flug Niceair frá Kaupmannahöfn til Akureyrar í dag sem er auðvitað jákvætt, áætluð lending á þvi flugi er kl. 14.45.
Veðurspáin fyrir þessa viku er annars með fjölbreytnina að leiðarljósi því samkvæmt henni skiptist á með skini og skúrum.
Liklega hitti Gunnar Straumland kennari og hagyrðingur naglann á höfuðið þegar hann sendi frá sér þessa snjöllu veðurlysingu í morgun.
Moksturskafald, maldringur,
mulla, snjóhreytingur.
Kófviðri og klessingur,
kyngi, skafrenningur.
Kafhríð, drífa kófbylur,
kyngja, geyfa, maldur.
Fannburðurinn fold hylur,
fjári er hann kaldur!
Höfundur Gunnar Straumland