,,Fjólójól – er nafn á tónleikum sem við systkinin þrjú úr Fjóluhvamminum í Hafnarfirði erum að halda í fyrsta skipti. Fjóluhvammurinn er æskuheimilið okkar og þegar við fengum þessa flugu í höfuðið að halda saman tónleika í fyrsta skipti saman, þá ákváðum við að nefna tónleikana eftir því. Því við hittumst alltaf í Fjóló... ,,Verðið þið í Fjóló um jólin?” er t.d. árleg spurning.
Við systkinin höfum öll sömu grunnmenntunina í samsöng. Við tókum öll fyrstu spor okkar á tónlistarbrautinni í hinum rómaða Kór Öldutúnsskóla, sem undir stjórn Egils Friðleifssonar ferðaðist út um allan heim og var fenginn til þess að syngja í ýmsum sjónvarpsupptökum í gegn um árin, syngja inn á hljómplötur (Vísnaplöturnar, Jólagestir Björgvins, svo fátt eitt sé nefnt) og við vorum svo heppin að fá að halda áfram í kórastarfi í Flensborg, þar sem við nutum leiðsagnar þeirra Margrétar Pálmadóttur og Hrafnhildar Blomsterberg.
Þessir miklu og dásamlegu tónlistarmenn höfðu mikil áhrif á okkur og mörkuðu fyrstu spor okkar systkinanna í tónlistinni.
Svo höfum við á okkar eigin forsendum haldið áfram að syngja okkur til gagns og gamans, og öll lært söng á einhverjum tímapunkti. Ívar tók þetta lengst, alla leið, en við systurnar aðeins styttra. Sönggleðin er alltaf með okkur.
Á þessum tónleikum fáum við að njóta meðleiks píanorganistans, kórstjórans, ljósmyndarans og náttúrubarnsins úr Dölunum Eyþórs Inga Jónssonar. Hann er organisti í Akureyrarkirkju, stjórnar multi-talent-kórnum Hymnodíu og nær að fanga einstakar ljósmyndir í náttúrunni" segir fjöllistamaðurinn Ívar Helgason þegar hann var inntur eftir þvi hvað Fjólójól eiginlega væri.