Orkuskipti í samgöngum á Akureyri fara vel af stað
„Við höfum séð örlítil merki þess undanfarin ár að raforkunotkun er að potast aðeins upp á við,“ segir Stefán H. Steindórsson sviðsstjóri hjá Norðurorku. Raforkunotkun á Akureyri hefur staðið í stað um árabil þó svo að bærinn hafi stækkað og íbúum fjölgað.
Hann segir að umtalsverðum orkusparnaði hafi verið náð um tíðina með bættum tækjabúnaði inni á heimilum, öll algengustu heimilistæki eru til muna sparneytnari en áður var, ledljós hafi leyst glóperur af hólmi sem hafði jákvæð umskipti í för með sér og þá skipti breytt notkun einnig máli.
Tæplega 1400 rafbílar
Nú hin allra síðustu ár hefur rafmagnsnotkun aukist lítillega og er skýring þar á fyrst og fremst sú að rafbílum hefur fjölgað. Um síðastliðin áramót voru alls 1.368 rafbílar skráðir á svæðinu og segir Baldur Hólm fagstjóri rafveitu að orkuskipti í samgöngum á Akureyri hafi farið vel af stað. Byggst hafi upp staðir sem bjóða upp á hraðhleðslu þar sem í boði er að hlaða bíla. Þá segir hann að eigendur raf- og tengiltvinnbíla hafi tekið vel í að hlaða sína bíla utan álagstíma dreifikerfisins, þ.e.að nýta einkum tímann frá kl. 22 á kvöldin og til 8 að morgni til hleðslu.
Hóf í kaup á hleðslustöð
„Samtímaálag dreifikerfis og hleðsluhegðun bæjarbúa skipa nokkuð stóran þátt í að nýta dreifikerfi og innviði með hagkvæmum hætti,“ segja þeir. „Rafhleðsla í samgöngum mun færa okkur áhugaverð en jafnframt krefjandi verkefni næstu árin. Við höfum bent eigendum rafbíla á að gæta hófs við val á hleðslubúnaði heima fyrir, einkum með hliðsjón af því að meðalakstur fólksbíla á Íslandi er um 38 kílómetrar á dag.“
Þeir segja mikilvægt að sníða sér stakk eftir vexti, kaupa ekki of stóra hleðslustöð en á því hafi borið meðal eigenda rafbíla en slíkt sé algjör óþarfi.