Lét drauminn um sjálfbæra ræktun rætast í Reykjadal

Indíana Þórsteinsdóttir til vinstri og Arnþór bróðir hennar við grænmetiskælinn til hægri ásam dóttu…
Indíana Þórsteinsdóttir til vinstri og Arnþór bróðir hennar við grænmetiskælinn til hægri ásam dóttur Indíönu og Ingólfs, en litla heimasætan heitir Vivíana Magnea. Myndir/Aðsendar Nýlega var opnuð sjálfsafgreiðslu verslun í skúr á bænum sem er opin allan sólarhringinn.

 Indíana Þórsteinsdóttir grænmetisbóndi í Vallakoti í Þingeyjarsveit segist vera ánægð með uppskeruna það sem af er sumri þrátt fyrir vetrarhörkur í júní. Þetta er þriðja árið sem fjölskyldan í Vallakoti, þrír ættliðir rækta grænmeti úti og hefur gengið vonum framar. Þau rækta níu tegundir af grænmeti á þremur hekturum og eru að uppskera um 15-20 tonn.


 Indíana bjó um sjö ára skeið í Noregi en fyrir tveimur árum flutti hún heim ásamt fjölskyldu sinni til að láta drauma um sjálfbæran landbúnað rætast.

Indíana

„Við vorum búin að vera í Noregi í 7 ár og það sem dróg okkur heim var bara hugmyndin um að fara rækta og þróa einhverskonar sjálfbæran búskap og ekki síst að vinna fyrir okkur sjálf.“ segir Indíana.

Þrjár kynslóðir í Vallakoti

Foreldrar Indíönu, Jóhanna Magnea Stefánsdóttir og Þórsteinn Rúnar Þórsteinsson tóku við búi foreldra Þórsteins fyrir um 30 árum síðan. Árið 2022 fluttu Indíana Þórsteinsdóttir dóttir þeirra, hennar maki, Ingólfur Örn Kristjánsson ásamt dóttur þeirra í Vallakot. Þá hefur bróðir Indíönu, Arnþór Þórsteinsson, einnig komið að grænmetisræktuninni. Indíana segir að Reykjadalurinn henti afar vel til grænmetisræktunar vegna veðursældar.

Sjálfsafgreiðsla allan sólarhringinn

„Það var frá upphafi draumur að opna litla búð á bænum og bjóða þar af leiðandi gestum og gangandi til okkar og versla grænmetið okkar beint frá okkur,“ segir Indíana en þau fóru einmitt af stað 1. ágúst með lítinn söluskúr með sjálfsafgreiðslu allan sólarhringinn og hefur gengið vonum framar. Þá selja þau grænmetið í Netto á Húsavík, og í helstu verslanir á Akureyri auk þess að selja á nokkra veitingastaði og mötuneyti.

Ræktunin byrjaði í litlum skrefum fyrir þremur árum en á síðasta ári var hún komin á þrjá hektara. „Við héldum okkur við það núna líka. Þá er það passlegt fyrir okkur og kannski með 2-3 manneskjur auka í vinnu hjá okkur yfir hábjargræðistímann,“ útskýrir Indíana og bætir við að þau hafi plantað í júní og uppskeran sé að komast á fullt núna.

VAllakot sjálfsafgreiðasl

Sluppu við vorhretið

Aðspurð segir hún að vorhretið sem reið yfir í júní hafi ekki haft veruleg áhrif. „Það var svo mikill klaki og frost í jörðu þegar við ætluðum að byrja að sá, sem var heppni fyrir okkur því ef við hefðum sáð fyrr þá veit ég ekki hvernig það hefði endað. Plönturnar okkar voru ennþá inni í gróðurhúsum svo júníhretið hafði lítil áhrif. Hægðist á vextinum í nokkra daga en alvarlegra var það ekki,“ segir Indíana.

 Níu tegundir af grænmeti

Grænmetisbóndinn segir að á Vallakoti séu ræktaðar níu tegundir af grænmeti; blómkál, gulrófur, rauðrófur, hvítkál, rauðkál, sellery, grænkál, hnúðkál og um helmingur akursins er undir spergilkál. „Stundum detta inn aukavörur sem við ræktum í mjög litlu upplagi. Td. kryddjurtir, chilli, salat, gulrætur og laukar,“ segir Indíana og bætir við að þau séu að gera tilraunir með hvítlauk.

„Hann er voða lítill enn þá. Við settum niður síðasta haust og hann þarf greinilega aðeins lengri tíma. Hann þarf að bíða fram í september og þá verður hægt að segja hvort tilraunin hafi heppnast.“

Fullkomið sumar

Unnið á Akrinum

Indíana viðurkennir að það séu áskoranir sem fylgi því að rækta grænmeti á Íslandi, fyrirsjáanleikinn í veðrinu sé ekki mikill.

„Maður veit ekkert hvað getur gerst fyrir fram en ég held að við séum alveg þokkalega sett hérna í Reykjadal, við erum alveg þokkalega hátt yfir sjávarmáli og veðursælt svona heilt yfir. Þetta grænmeti sem við erum með þarf ekki neinn voðalegan hita, bara rigningu og 15 gráður. Þetta er búið að vera fullkomið sumar upp á það að gera, við erum aldrei búin að þurfa að vökva, það rignir alltaf með hæfilegu millibili og hitinn hefur ekki farið niður fyrir eitthvað rugl,“ segir Indíana sem er nokkuð sátt við uppskeruna.

Svangar gæsir til vandræða

Indíana útskýrir að gæsir hafi látið sjá sig á grænmetisakrinum að Vallakoti og virst svangar eftir júníhretið.

„Það eyðilagði svolítið fyrir okkur. – Við erum kannski að tala um svona 20 prósent. Það sem gerist er að hún gataði dúkinn, það vantaði svona góðan part í eitt beðið. Þar hafði gæsin pikkað upp plönturnar í gegnum götin. Svo gataði hún flesta dúkana og þá fengum við aðeins af kálflugu, af því að dúkarnir verða götóttir þá kemst hún inn undir. En sem betur fer tókst flugunni ekki að gera neinn voðalegan skaða,“ útskýrir hún.

Í kjölfarið voru settir niður grænir plastdúkar og þá lét gæsin sig hverfa og kom ekki aftur.

Fjölskyldurekin ferðaþjónusta

Auk grænmetisræktunar er rekin ferðaþjónusta á bænum. Þrjár litlar íbúðir og bústaður sem hýsir sex manneskjur. Indíana segist vera mjög sátt við útkomuna í sumar þrátt fyrir samdrátt í ferðaþjónustu á Íslandi. Þetta er búið að ganga þokkalega, það hefur alveg verið betra en við erum ekki að kvarta, ekki hér alla vega. Við erum alveg ágætlega sátt við vertíðina. Svo erum við með nokkrar kindur, hænur og óþæga hunda,“ segir Indíana og bætir við að draumurinn sé að byggja upp grænmetisræktina þannig að hægt sé að halda úti a.m.k. einu stöðugildi allan ársins hring en eins og er eru þau öll útivinnandi meðfram búskapnum en Indíana er kennari við Framhaldsskólann á Húsavík.

Sjálfsafgreiðslu kofi

Nýjast