Klassík á eyrinni er ný kammertónlistarhátíð

Á myndinni eru frá vinstri þær Sólveig Steinþórsdóttir fiðluleikari, Geirþrúður Anna Guðmundsdóttir …
Á myndinni eru frá vinstri þær Sólveig Steinþórsdóttir fiðluleikari, Geirþrúður Anna Guðmundsdóttir sellóleikari, Þóra Kristín Gunnarsdóttir píanóleikari, Anna Elísabet Sigurðardóttir víóluleikari og Rannveig Marta Sarc fiðluleikari. Mynd aðsend

Klassík á eyrinni er splúnkuný kammertónlistarhátíð sem fer fram um komandi helgi, 17. - 18. ágúst og samanstendur af þrennum tónleikum í Sæborg í Hrísey, Glerárkirkju og Hofi.

Fram kemur einvalalið ungra íslenskra tónlistarmanna: Þóra Kristín Gunnarsdóttir píanóleikari, Sólveig Steinþórsdóttir og Rannveig Marta Sarc fiðluleikarar, Anna Elísabet Sigurðardóttir víóluleikari og Geirþrúður Anna Guðmundsdóttir sellóleikari. Saman leika þær uppáhaldsverk kammerbókmenntanna, allt frá Bach og Beethoven til nútímans.

Hátíðin er hugarfóstur Geirþrúðar Önnu Guðmundsdóttir sellóleikara og Sólveigar Steinþórsdóttur fiðluleikara.

Frábær aðstaða og öflugt tónlistarlíf

 „Við höfum spilað kammertónlist saman í næstum því 15 ár eða frá því við vorum báðar nemendur við Tónlistarskólann í Reykjavík. Okkur langaði gjarnan að skapa fleiri tækifæri fyrir unga íslenska tónlistarmenn að koma saman og spila kammertónlist. Okkur fannst Akureyri líka hafa alveg einstaka sérstöðu utan höfuðborgarsvæðisins með frábæra aðstöðu til tónleikahalds, þar ná ekki bara nefna Hof heldur einnig fjölmargar kirkjur og söfn, en þar er einnig í boði fjölbreytt og öflugt tónlistarlíf og tónlistarskólar,“ segir Geirþrúður Anna.

Árleg kammertónlistarhátíð

„Kammertónlist vill gjarnan einskorðast við höfuðborgarsvæðið og markmiðið er að setja hér upp árlega kammertónlistarhátíð sem fer fram í Akureyri og nærsveitum,“ bætir hún við.

Þetta árið slást þrír tónlistarmenn í för með Geirþrúði og Sólveigu, Þær eru Þóra Kristín Rannveig Marta og Anna Elísabet. Þóra Kristín er uppalin á Akureyri og var nemandi við Tónlistarskólann á Akureyri. Allar hafa hinar komið oft fram með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og SinfoniuNord og á kammer- og einleikstónleikum í Hofi og víða annars staðar á Norðurlandi.

 

Nýjast