Matarmarkaður á Svartárkotsbúinu í Bárðardal

Sigurlína og Guðrún Tryggvadótur bændur í Svartárkoti taka á móti gestum á morgun sunnudag í tengslu…
Sigurlína og Guðrún Tryggvadótur bændur í Svartárkoti taka á móti gestum á morgun sunnudag í tengslum við Beint frá býli daginn Myndir MÞÞ

Svartárkotsbúið í Bárðardal verður opið gestum á morgun sunnudag, 18. ágúst, þegar samtökin Beint frá býli halda upp á daginn með því að bjóða upp á heimsóknir á býli um land allt. Dagurinn er nú haldinn annað árið í röð. Beint frá býli dagurinn var haldinn á liðnu ári í tilefni af 15 ára afmæli samtakanna og þá á 6 lögbýlum, einum í hverjum landshluta og var tilgangurinn að kynna starfsemi heimavinnsluaðila og byggja upp tengsl þeirra á milli.

Afar góð mæting var í öllum landshlutum og almennt mikil ánægja.

Skipuleggjendur áætla að 3-4000 manns hafi lagt leið sína á bæina samanlagt. Því var ákveðið að gera daginn að árlegum viðburði. Heimavinnsluaðilar og smáframleiðendur matvæla mæta í Svartárkot til að kynna og selja vöru sína. Gestum verður boðið upp á léttar veitingar, kökusneið, kaffi og djús í boði samtakanna Beint frá býli.

Nýtt vinnsluhús í byggingu

Matarmarkaðurinn og veitingarnar verða í nýju vinnsluhúsi sem er í byggingu á býlinu en framleiðendur í samtökunum taka þátt og bjóða upp á varning. Leiðsögn verður í reykhúsið og gestir fræddir um fjallahringinn og helstu örnefni. Svartárkot er einn af samstarfsaðilunum sem standa að Nægtarbrunni náttúrunnar, þróunarverkefni sem gestir fá kynningu á. Unnið er að byggingu stærra vinnslurýmis og gróðurhúss sem hægt er að skoða. Þá eru mannelskir heimalningar á staðnum og hestar sem yngri gestir geta fengið að sitja.

Reyktur silungur frá Svartárkoti er rómaður

Hugur í bændum í Svartárkoti

Í Svartárkoti er stundaður sauðfjárbúskapur ásamt annarri starfsemi. Guðrún Sigríður Tryggvadóttir og Hlini Gíslason reka sauðfjárbúið en Sigurlína Tryggvadóttir og Magnús Skarphéðinsson reka ferðaþjónustuna ásamt fleirum, í Kiðagili í Bárðardal þar sem í boði er gisting og veitingasala.

Guðrún segir ferðaþjónustu hafa undanfarin ár orðið æ fyrirferðameiri og nái yfir lengra tímabil en áður og því hafi búskapurinn og ferðaþjónustan í rauninni verið að keppa um tímann. Þess vegna hafi verið ákveðið að skipta störfum á milli aðila upp svo þetta gæti allt gengið upp og því hafi Guðrún og Hlini tekið að sér sauðfjárbúskapinn meðan Sigurlína og Magnús sinna ferðaþjónustunni en þess á milli vinna þau saman að annarri annari starfsemi búsins og ýmsum þróunarverkefnum.

Bæta aðstöðu og þróa fleiri afurðir

„Við höfum lengi unnið talsvert sjálf úr okkar afurðum, hér er reykhús og lítið vinnsluhús, rúmir 40 fermetrar að stærð. Meðal annars höfum við reykt silung og hangikjöt, en ætlum að fara í meira mæli út í vinnslu á eigin afurðum og erum því að reisa nýtt vinnsluhús. Það verður um 100 fermetrar að stærð og við munum í kjölfar þess að það verður tilbúið hafa rýmri og betri aðstöðu til framleiðslunnar en við höfum undanfarin ár verið að þróa aðrar og fleiri afurðir,“ segir Guðrún en einnig stendur til að opna litla sveitabúð á jörðinni í framhaldinu.

Gróðurhúsið mun ganga fyrir jarðrafhlöðu

Auk þess sem nýtt vinnsluhús er í byggingu er verið að reisa gróðurhús í Svartárkoti og mun það að erlendri fyrirmynd nýta jarðrafhlöðu sem lengir ræktunartímann á köldu svæði. Þetta er nýjung hér á landi. Guðrún segir að gróðurhúsið sé í byggingu ásamt jarðrafhlöðunni og stefnt sé að því að taka húsið í notkun næsta sumar. Til stendur að rækta allra handa grænmeti í húsinu og prófa sig m.a. áfram með framleiðslu á vínberjum og fleiru.

Það er margt sem gleður augað þarna ,,efra"

Nýjast