„Uppbygging raforkukerfisins er ekki í takti við þörf samfélagsins“. Þetta sagði Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, á ráðstefnunni „Orkuöryggi – hvernig tryggjum við orkuöryggi til framtíðar?“ sem Lagadeild Háskólans á Akureyri stóð fyrir þann 18. mars síðastliðinn. Meðal þess sem kom fram á ráðstefnunni var að Björg Eva Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri Landsnets, sagði að raforkuöryggi byggi á réttlæti og stöðugleika fyrir minni notendur. Halla Hrund Logadóttir, þingmaður og fyrrverandi orkumálastjóri, sagði að við óbreytt ástand væri það ekki spurning um hvort heldur hvenær raforkuskortur verði á Íslandi og að tryggja þurfi forgang almennings og Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir, lektor við lagadeild HA, velti upp þeirri spurningu hvort rétt væri að færa leyfisveitingarvaldið vegna vatnsaflsvirkjana aftur til Alþingis.