Hvernig tryggjum við orkuöryggi?
„Uppbygging raforkukerfisins er ekki í takti við þörf samfélagsins“. Þetta sagði Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, á ráðstefnunni „Orkuöryggi – hvernig tryggjum við orkuöryggi til framtíðar?“ sem Lagadeild Háskólans á Akureyri stóð fyrir þann 18. mars síðastliðinn. Meðal þess sem kom fram á ráðstefnunni var að Björg Eva Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri Landsnets, sagði að raforkuöryggi byggi á réttlæti og stöðugleika fyrir minni notendur. Halla Hrund Logadóttir, þingmaður og fyrrverandi orkumálastjóri, sagði að við óbreytt ástand væri það ekki spurning um hvort heldur hvenær raforkuskortur verði á Íslandi og að tryggja þurfi forgang almennings og Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir, lektor við lagadeild HA, velti upp þeirri spurningu hvort rétt væri að færa leyfisveitingarvaldið vegna vatnsaflsvirkjana aftur til Alþingis.
Guðjón Axel Guðjónsson, lögfræðingur hjá Landsneti, fjallaði á ráðstefnunni um orkuöryggi og flutningskerfi raforku. Talaði hann meðal annars um mikilvægi þess að aðgerðir til að tryggja orkuöryggi valdi ekki röskun á raforkumarkaði. Hann fjallaði um helstu áskoranir í raforkumálum nú á dögum og breyttar aðstæður í Evrópu í raforkumálum.
Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, ræddi um öryggi og orkuþörf bæði til lengri og skemmri tíma þar sem orkuskipti kalli á meiri raforku. Landsvirkjun hafi ítrekað varað við stöðunni sem nú sé uppi. Það sé mikilvægt að byggja upp raforkuframleiðslu til þess að hægt sé að mæta þörfum samfélagsins.
Björg Eva Erlendsdóttir hjá Landvernd velti upp þeirri spurningu hvort pólitískur vilji sé allt sem þurfi til að tryggja raforkuöryggi. Raforkuöryggi byggi á réttlæti og stöðugleika fyrir minni notendur, enda treysti almenningur og minni fyrirtæki á lífsnauðsynlega raforku . Forgangsröðun orku sé nauðsyn, samfélagið eigi að ganga fyrir og stjórnmálin eigi að tryggja það.
Halla Hrund Logadóttir, þingmaður og fyrrverandi orkumálastjóri, fjallaði um orkuöryggi og forgang almennings til orku. Umfjöllunin tengdist þingsályktunartillögu sem hún ásamt fleirum lagði nýverið fram á Alþingi um orkuöryggi almennings. Við óbreytt ástand verði þetta ekki spurning um hvort heldur hvenær raforkuskortur verður á Íslandi, sem muni hafa áhrif á samfélagið allt.
Hilmar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður og sérfræðingur í orkurétti ræddi meðal annars um það hvernig við skilgreinum orkuöryggi, uppruna regluverks um orkuöryggi og orkuöryggisskýrslu. Nú sé heimsmyndin breytt m.a. vegna Úkraínu og Gaza. Í frumvarpi um orkuöryggi sem lagt hafi verið þrisvar fram á Alþingi sé áherslan á öryggi heimila og almennra notenda.
Ragnheiður Elfa var með síðasta erindi ráðstefnunnar og fjallaði um leyfisveitingar vegna vatnsaflsvirkjana og hvernig leyfisveitingarferlið hefur breyst frá Kárahnjúkavirkjun til Hvammsvirkjunar. Nú sæti það gagnrýni fyrir að vera þungt og flókið. Almenn sátt sé um að tryggja aðkomu almennings og Alþingis og velti hún upp þeirri spurningu hvort rétt sé að færa leyfisveitingarvaldið vegna vatnsaflsvirkjana aftur til Alþingis.
Þetta er þriðja orkuráðstefnan sem lagadeildin stendur fyrir en sú síðasta fór fram árið 2023. Ragnheiður Elfa sá um skipulagningu hennar með aðstoð Ástu Magnúsdóttur, stundakennara við lagadeild HA, og Sifjar Hauksdóttur, meistaranema við deildina. Ásta var jafnframt ráðstefnustjóri og Ragnheiður Elfa stjórnaði pallborðsumræðum.
Ráðstefnan var vel sótt bæði á staðnum og í streymi.
Að þessu sinni var ráðstefnan hluti af kennslu í námskeiðinu orku- og loftslagsréttur, sem er valnámskeið í meistaranámi við lagadeildina en Ásta hefur umsjón með því.
Að loknum erindum tóku við líflegar og skemmtilegar umræður.
Upptöku af ráðstefnunni má nálgast á vef Háskólans.
Fyrir vefinn: Upptöku af ráðstefnunni má nálgast hér: https://www.unak.is/is/samfelagid/upptokur-og-utsendingar