Glamrið í glerhúsunum
Það hefur löngum þótt slæmur siður að kasta grjóti úr glerhúsi. Myndlíkingin skýr, glerinu rignir samstundis í höfuð þess sem kastar. Því er rétt að staldra aðeins við áður en grjótið er látið vaða.
Það koma tímabil í þjóðfélagsumræðunni þar sem grjótið bylur úr glerhúsum. Allir virðast færir um að skella yfir sig kufli vandlætingar og þótta, og þeyta mölinni í allar áttir. Allt sem miður fer er öðrum að kenna.
Börn í Breiðholti beita ofbeldi og það er innflytjendavandi, börn í Garðabæ lenda á glapstigum því kennarar voru svo lengi í verkfalli. Eldar brenna á meðferðarheimili því gæslan var ekki nógu góð. Erfiður vandi, einfaldar ástæður, engar lausnir. Og umræðunni lýkur þar, allt þar til næstu hörmungar dynja á.
Birtingarmynd hræsninnar er svo að nýta sér ástand til að knésetja fólk og upphefja sjálfan sig í leiðinni. Aftur og aftur er það sama dæmið með bjálkann og flísina.
Sjálfstæðismenn og framsókn eru þessar vikurnar skyndilega að uppgötva allskonar misbresti í innviðum og samfélaginu öllu. Misbresti sem hafa farið kirfilega fram hjá þeim hingað til. Vegirnir eru ónýtir, stofnanir illa reknar, heilbrigðiskerfið í molum og menntakerfið, guð minn góður staðan á því. Heilög vandlæting geislar af málflutningnum, allt er þetta að sjálfsögðu ríkisstjórninni að kenna. Og grjótið flýgur, glerið glamrar.
Framsókn sem hefur talið sig málsvara bænda er skyndilega búin að sjá ljósið og hefur á reiðum höndum lausnina á vanda landbúnaðarins. Alveg merkilegt, miðað við allan þann tíma sem flokkurinn hefur setið við kjötkatlana og öll þau tækifæri sem hafa gefist til breytinga. Þeirra snilldarlega útspil, hvert skyldi það vera? Jú, að múlbinda nýliða sem leiguliða á jörðum í eigu ríkisins. Eins og ríkið hefur nú staðið sig vel í höndlun sinna jarða. Smásteinn skellur í glerinu.
Síðustu vikuna hefur mér stundum liðið eins og barninu sem stendur á skólalóðinni og fylgist með hópnum ráðast gegn einum. Þar sem gamlar syndir eru dregnar upp og notaðar til að draga ráðherra niður af sínum stalli. Hún var ekki hópnum þóknanleg, ekki í rétta flokknum, ekki nógu sæt og þæg. Og átti, eins og flestir, gamlar beinagrindur inni í skáp. Lá vel við höggi.
Fjölmiðlar, með Rúv og moggann í fararbroddi, koma fram sem örgustur slúðurmiðlar, meira að segja Rúv gefur sér ekki tíma til að gaumgæfa staðreyndir, fagleg fréttamennska fyrir bí. Siðareglur blaðamanna að litlu hafðar í kapphlaupi um bestu smellubeiturnar. Og þingmaðurinn af Klausturbar mættur í ræðustól með vandlætingarsvip. Þórðargleðin ógurleg. Svo kemur í ljós að enginn glæpur var framinn, það var ekkert fórnarlamb.
Hversu mörg okkar ætli hafi gert eða sagt eitthvað í hita leiksins og unggæðingshætti, skandaliserað á fylleríi, smitast af kynsjúkdóm, haldið framhjá? Sofið hjá einhverjum sem betur hefði verið ósofið hjá? Allir þeir sem einu sinni slógust í Víkurröst, Sjallanum eða í Ýdölum, er rétt að úthrópa þá alla ofbeldismenn? Hver telur sig þess umkomin að kasta grjóti úr þessu glerhúsi?
Nei, það er enginn furða að almennilegt fólk veigri sér við að stinga hausnum í þá hakkavél sem samfélagsumræðan og fréttamennskan er. Afleiðingin óhjákvæmilega sú, að slæmir hlutir gerast meðan gott fólk stendur aðgerðalaust hjá. Eigum við að láta glerinu rigna yfir okkur?