Kvíaból í Kaldakinn fyrirmyndarbú nautgripabænda
Bændurnir á Kvíabóli hlutu viðurkenninguna Fyrirmyndarbú Nautgripabænda BÍ á dögunum og tóku þau Haukur Marteinsson og Ingiríður Hauksdóttir á móti verðlaununum.
Kvíaból er í Kaldakinn en það var stofnað á sjötta áratug síðustu aldar sem nýbýli út úr landi Garðshorns af hjónunum Helgu Hauksdóttur frá Garðshorni og Sigurði Marteinssyni frá Hálsi í sömu sveit. Við búi af þeim tók Marteinn sonur þeirra og kona hans Kristín Björg Bragadóttir og eiga þau stóran þátt í uppbyggingu búsins. Í dag standa fyrir búi Haukur Marteinsson og kona hans Ingiríður Hauksdóttir.
Árangur hefur vakið eftirtekt
Byggingar á Kvíabóli eru reisulegar, skipulega raðað og snyrtimennska og mikill myndarbragur viðhafður í hvívetna. Á búinu er stunduð mjólkurframleiðsla ásamt framleiðslu nautakjöts auk gras- og kornræktar. Árangur búsins hefur óneitanlega vakið eftirtekt, kýrnar mjólka með miklum ágætum og meðalnyt hefur verið yfir 7 þús. kg undanfarin ár eða vel yfir meðaltali landsins. Árangur í framleiðslu nautakjöts hefur ekki verið síðri en þar hefur búið skipað sér í fremstu röð þrátt fyrir að framleiðslan byggi einkum á alíslenskum gripum.
„Búið er, að segja má með sanni, sómi sinnar sveitar,“ segir í umsögn vegna viðurkenningarinnar. Þátttaka í félagsstörfum, frumkvöðlastarfi, eins og t.d. í kornrækt, og ræktunarstarfi er virk og ábúendur njóta traust og virðingar sveitunga sem og kollega sinna. Slíkt er ekki sjálfgefið, menn þurfa að ávinna sér traust og virðingu með framgangi og verkum.