VMA - Látið bara vaða!

Lilja Lind Gunnlaugardóttir (t.v.) og Emilía Björt Hörpudóttir hvetja kynsystur sínar til þess að fa…
Lilja Lind Gunnlaugardóttir (t.v.) og Emilía Björt Hörpudóttir hvetja kynsystur sínar til þess að fara í nám í húsasmíði Mynd vma.is

Emilía Björt Hörpudóttir og Lilja Lind Gunnlaugardóttir eru á fjórðu önn í námi sínu í húsasmíði. Í vetur hafa þær verið í stórum hópi nemenda sem byggir frístundahús frá grunni – ekki eitt heldur tvö. Þær voru að bjástra uppi á svefnlofti í minna frístundahúsinu þegar kíkt var inn í byggingadeildina. Í stærra húsinu er allt á fullu og það komið lengra en oft áður. Bæði nemendur í pípulögnum og rafvirkjun hafa lagt sín lóð á lóðarskálarnar við byggingu og frágang húsanna.

Emilía segir að það sem hafi dregið hana í smíðarnar hafi verið áhugi hennar á hönnun, að skapa eitthvað og hún horfir á smíðarnar sem góðan grunn fyrir hvort sem er byggingartæknifræði eða arkitektúr. Stefnan sé því að taka stúdentinn líka.

Eftir þessa önn verður einnar annar uppihald í námi, þá fara nemendur út á örkina og starfa í faginu. Seyðfirðingurinn Emilía horfir austur og stefnir á að vinna á fullu í smíðunum þar. Síðastliðið sumar starfaði hún hjá Tréiðjunni Eini á Egilsstöðum og fékk tækifæri til þess að ganga í fjölbreytt störf. Lilja er líka þessa dagana að þreifa fyrir sér með vinnu í smíðunum í sumar og á haustönn.

En hvernig kom það til að Lilja, sem býr á Akureyri en ólst upp í Hörgársveit, ákvað að skella sér í smíðarnar. Hún segir ekki mikið um smiði í kringum sig – systur sínar hafi lært eins ólíkar greinar og hjúkrunarfræði og vélfræði – en hugmyndin um smiðinn hafi komið upp í níunda bekk. Hún segist ekki sjá eftir því vali en hafi húsgagnasmíði verið í boði hefði hún frekar viljað velja þá leið. En því miður hafi ekki nægilega margir valið húsgagnasmíðina til þess að hún væri kennd.

Emilía segist vera á þeirri skoðun að sem flestir nemendur ættu að taka grunninn á einhverri verknámsbraut, þó ekki væri annað en til þess að geta nýtt sér þá kunnáttu í hinu daglega lífi. Og gildi þá einu af hvaða kyni nemendur séu, allt verknám sé gott fyrir lífið. Emilía bætir við að strákar, ekki síður en stelpur, hefðu mjög gott af því að fara í gegnum hússtjórnarskólanám.

Skilaboð Emilíu og Lilju til kynsystra sinna eru einföld, látið bara vaða og drífið ykkur í nám sem strákar hafa jafnan verið í miklum meirihluta, t.d. í húsasmíði. Ánægjulegt sé að auk þeirra tveggja séu þrjár aðrar stúlkur í námi á öðru ári í húsasmíðinni og þrjár stúlkur stundi nú nám á fyrsta ári.

Það er vma.is sem sagði fyrst frá

Nýjast