Hvenær kemur miðbærinn sem beðið var um?

Ragnar Sverrisson skrifar
Ragnar Sverrisson skrifar

Í september 2004 var haldið íbúaþing á Akureyri, undir yfirskriftinni Akureyri í öndvegi. Þar kom saman fjöldi bæjarbúa sem lét sig varða framtíð bæjarins, sérstaklega miðbæjarins. Það var orka í loftinu, von og skýr sýn þessara 1600 þátttakenda sem þarna voru. Við vildum lifandi miðbæ. Göngugötur, menningu, kaffihús, verslanir og fjölbreytt mannlíf í hjarta bæjarins sem væri bæði opinn og aðlaðandi.

En hvað gerðist? Í stuttu máli: Ekki neitt. Eða réttara sagt – of lítið og of hægt.

Tuttugu ár eru liðin frá því við fórum í gegnum þetta íbúalýðræðisverkefni. Tuttugu ár! Á meðan hafa önnur sveitarfélög farið fram úr okkur með framsýni og kjarki. Þar hefur verið hlustað á íbúana og brugðist við með aðgerðum, ekki bara fögur orð á fundum eða með glansandi skýrslum sem enda í skúffu. Aðgerðir fylgdu í kjölfarið en hér á Akureyri virðist eins og hugrekki skorti.

Það hefur verið látið dandalast áfram í einhverjum ótta við breytingar eða óútskýrð hræðsla við aðgerðir. Bílastæðahagsmunir og ákvarðanafælni hafa unnið með sinn vanalega kraft og niðurstaðan er dapurleg: Miðbærinn er enn hálfgert steypt draugahverfi hluta dagsins og langt frá því sem við viljum kalla lifandi miðpunkt bæjarins.

Þetta er ekki gagnrýni á einstaka bæjarfulltrúa – þetta er ákall til þeirra allra: Vaknið! Hlustið á fólkið sem býr hér! Við höfum beðið nógu lengi. Nóg af vinnuhópum, nóg af  ,,undirbúningi”, nóg af því að sparka boltanum milli ykkar eins og á æfingu.

Það þarf að taka af skarið og það ekki seinna en strax.. Ekki eftir fimm ár, ekki á næsta kjörtímabili. Það þarf að horfa til framtíðar með djörfung, en byggja hana á traustum grunni: þeirri sýn sem íbúar settu fram árið 2004.

Ef bæjarstjórnin treystir sér ekki til að framkvæma þá framtíðarsýn sem fólkið í bænum mótaði, ætti hún ef til vill að víkja fyrir þeim sem treysta sér til að framkvæma ákarðanir sem teknar voru í sátt og samlyndi fyrir röskum tíu árum. Sannleikurinn er nefnilega sá að allt þetta snýst ekki um steypu eða götur.

Þetta snýst um okkur – íbúa bæjarins og gesti okkar. Um framtíð bæjarins okkar og svo því að ekki er áhugi á að bíða í tuttugu ár í viðbót.

 

Ragnar Sverrisson, kaupmaður

 

Nýjast