Hverju munar um mig?
Því skýtur reglulega upp í kolli mínum hversu léleg við Íslendingar erum að nota áhrif okkar þegar okkur er misboðið.
Ég hef talað um að við kjósum ekki “með fótunum” það er að við sniðgöngum ekki þá sem hafa að okkar mati gert það sem við teljum ekki rétt. Máttur almennings, hvers og eins, getur nefnilega verið mikill.
Nýlega barst frétt frá Danmörku um að almenningur reyndi að sneiða hjá bandarískum vörum í mótmælaskyni við framferði þeirra á þessum síðustu og verstu. Tollastríðið sem nú er hafið í heiminum er tilefni til að við hugsum um hvaðan varan sem við neytum kemur.
Sjálf er ég þannig neytandi að ég hef of lítið verið að velta þessu fyrir mér þar til ég komst að því að uppáhalds hárvörurnar mínar koma frá Ísrael. Ég snarhætti að nota þær og fann aðrar jafn góðar. Og þótt ég borði lítið sælgæti og aldrei morgunkorn er að finna svo ótalmargt í skápunum mínum eins og krydd og alls konar bökunar- og niðursuðuvörur. Þá er stór hluti snyrtivara sem seldar eru hér á landi framleiddar í Bandaríkjunum og svo mætti lengi telja.
Kauphegðun skiptir máli!
Rússneskar vörur reka ekki á fjörur mínar; veit að minnsta kosti ekki til þess, en í hillum verslana er mjög mikið um vörur framleiddar í Bandaríkjunum. Nú hugsa flestir sennilega sem svo, “hverju munar um mig?” Og þar liggur hundurinn grafinn! Það er svo þægilegt að halda að kauphegðun hvers og eins breyti engu og halda þar með áfram að kaupa það sem við erum vön og þykir gott.
Eins og einhverjir sem þetta lesa vita dvaldi þessi rúmlega miðaldra kona nýlega á Spáni. Þar á bæ er mjög lítið um vörur frá Bandaríkjunum í stærstu matvöruverslununum og ekki söknuðum við þess. Spánverjar virðast að mestu framleiða sinn mat sjálfir og er hann í hæsta gæðaflokki. Vissulega var að finna hina bresku verslun Iceland þar sem úði og grúði af góssi sem við þekktum heiman frá en þar inni var allt starfsfólk og viðskiptavinir breskir og líklegt að fáir Spánverjar venji þangað komur sínar.
En að kjarna málsins. Hvernig væri að við notuðum þá aðferð að sniðganga vörur frá til dæmis Bandaríkjunum og Ísrael til að láta vandlætingu okkar í ljós? Að sniðganga vörur frá þeim löndum þar sem ráðamenn fara fram með offorsi og yfirgangi. Heildsalar munu kannski emja en við höfum stutt þá nógu lengi.
Akureyringar sönnuðu það á dögunum að það er hægt að bregðast við þegar mikið liggur við þegar þeir þyrptust í Bónus þegar í boði var 30% afsláttur.
Þetta er mjög öflugt verkfæri og ég lýsi hér með eftir fólki sem er til í þessa vegferð með mér.
Höfundur er áhugamaður um almenna velferð.