Læstar fréttir

Á golfvellinum frá unglingsaldri

Steindór Ragnarsson er framkvæmdastjóri Golfklúbbs Akureyrar (GA) en hann hefur starfað á vellinum um árabil. Hann byrjaði fyrst að vinna á vellinum árið 1998 og því öllum hnútum kunnur á vellinum. Steindór er menntaður í golfvallafræðum frá Elmwood College í Skotlandi og er formaður Samtaka íþrótta- og golfvallarstarfsmanna á Íslandi. „Ég byrjaði í unglingavinnunni hjá bænum hérna á vellinum og fékk í framhaldi vinnu hjá GA. Fyrstu árin með skóla var þetta sumarvinna en árið 2004 varð ég vallarstjóri og var í því starfi í 15 ár áður en ég fékk stöðu framkvæmdastjóra árið 2017,“ segir Steindór. Það styttist óðum í að golfsumarið hefjist en Klappir, æfingasvæðið á Jaðarsvellinum hjá Golfklúbbi Akureyrar, opnaði í lok mars. Starfsmenn hafa unnið hörðum höndum í vetur að létta á snjó og tryggja það að snjór og klaki fari af flötunum eins fljótt og mögulegt er og því kemur grasið nokkur vel undan vetri. Flatirnar eru í góðu ásigkomulagi og segir Steindór full ástæða fyrir golfara að til að láta sig hlakka til sumarsins. Þá fer sjálft Íslandsmótið í golfi fram á Akureyri og er undirbúningur hafin fyrir þetta stærsta mót sumarins. Steindór er Norðlendingur vikunnar og situr hér fyrir svörum.
Lesa meira

Kjúklingaréttur sem grætir fólk

„Ég vil byrja á því að þakka Brynjari Davíðssyni kærlega fyrir að skora á mig í matarhornið. Þar er á ferðinni vandaður og góður maður. Þó skapstyggur og saðsamur sé þá veit hann ávallt hvar svangur maður situr,“ segir Andrés Vilhjálmsson sem sér um matarhornið þessa vikuna. „Burtséð frá því að vera söngvari stórhljómsveitarinnar Pálmar, eins og Brynjar kom glettilega inn á, þá starfa ég sem markaðsstjóri hjá Kjarnafæði. Ég er þriggja barna faðir, í sambúð með Helgu Sif Eiðsdóttur og hef mikinn áhuga á matargerð. Í starfi mínu fæst ég við mat allan daginn og hef gaman að skoða uppskriftir. Við tengjum páskana að sjálfsögðu við lambakjöt og því er ein uppskrift í þeim dúr.
Lesa meira

Bólusetningarnar verið afar krefjandi en lærdómsríkt ferli

Inga Berglind Birgisdóttir er yfirhjúkrunarfræðingur hjá HSN sem hefur séð um bólusetningar á Norðurlandi. Nóg hefur verið að gera hjá Ingu undanfarið og í mörg horn að líta enda eru bólusetningarnar afar vandasamt og krefjandi verkefni. Vikublaðið forvitnaðist um líf og starf Ingu Berglindar. „Bólusetningarnar hérna fyrir norðan hafa heilt yfir gengið mjög vel og ég er afar þakklát fyrir hvað það er frábært fólk sem hefur komið að þessu stóra verkefni. Helst ber að nefna mjög gott samstarf allra viðbragðsaðila hér á Akureyri og þá helst Slökkviliðið og lögreglu, einnig Rauða Krossinn, Landsbjörgu og Sjúkrahúsið. Síðast en alls ekki síst allt starfsfólkið á HSN sem hefur staðið sig afar vel í þessu stóra verkefni,“ segir Inga Berglind. Hún segir að almennt sé fólk jákvætt fyrir því að fá bóluefni. „Flestir eru mjög fegnir að loks sé komið að því að bólusetja landann. Margir hafa verið í erfiðri stöðu um langa hríð og því er það mikið gleðiefni fyrir fólk að fá bólusetningu. Það er mín upplifun að fólki finnst þetta ganga of hægt og flestir eru tilbúnir að rétta fram handlegginn og þiggja bóluefni.“ Hún segir þetta umfangsmesta verkefnið sem hún hafi tekist á við í sínu starfi. „Tvímælalaust. Eins og bara faraldurinn allur. Við rétt blikkum augunum og þá eru áherslurnar í dag orðnar allt aðrar en í gær en með einhverjum ótrúlegum hætti náum við þó alltaf að rétta úr okkur og halda áfram. Vinnudagarnir hafa verið bæði langir og strangir og stundum erfitt að slíta sig frá vinnu eftir að heim er komið. En þrátt fyrir það hafa þeir líka verið lærdómsríkir og skemmtilegir.“ Inga segir að enginn dagur sé eins í vinnunni.
Lesa meira

„Þegar neyðin er stærst þá er hjálpin stundum næst“

„Það var mikið gleðiefni þegar Hjalti vinur minn, höfum reyndar þekkst í skamman tíma, skoraði á mig í þetta ágæta matarhorn. Hann hefur væntanlega gert það að áeggjan Siguróla sem ég er búin að þekkja af góðu einu mun lengur,“ segir Brynjar Davíðsson sem tók áskorun frá Hjalta Þór Hreinssyni og sér um matarhornið þessa vikuna. „Það gleður mig mjög að þeir hafi getað skemmt sér yfir þessum gjörningi. Siguróli skuldar mér einmitt matarboð og ég geri kröfu á að Hjalti verði þar líka. Sjálfur er ég ekki mikið í tilraunamennsku í eldhúsinu, þessi eina önn sem ég tók á matvælabraut í VMA virðist löngu gleymd. Ekki eru matreiðslubækur ofarlega í staflanum á náttborðinu mínu eins og hjá þeim kumpánum og liðsfélögum mínum í El Clasico boltanum. Er þó mikill aðdáandi Matreiðslubókar Friðriks Dórs, en líklega best að segja ekki mikið frá því hér. En þegar neyðin er stærst þá er hjálpin stundum næst og þó engar séu bækurnar þá er gagnaöflun nokkuð einföld. Ég ætla nú samt að reyna vinna með þrjá rétti í þessari grein. Lambalæri er einfalt og erfitt að klúðra því nema með nokkuri lagni. Hamborgarar eru klassískir á grillið og nú þegar vora tekur er það alveg tilvalið. Svo er líka þessi fína döðluterta í boði sem sjaldan klikkar. Nema þú borðir ekki döðlur,eins og tilfellið er reyndar með mig,“ segir Brynjar.
Lesa meira

„Alveg tilbúin til að kveðja lífsstarfið mitt“

Helena Eyjólfsdóttir er landsmönnum góðkunn en hún söng sig inn í hjörtu íslensku þjóðarinnar sem barn og hefur gert ófáar dægurlagaperlurnar ógleymanlegar á löngum ferli sem söngkona. Helena vakti nýverið athygli í þættinum Það er komin Helgi þar sem hún mætti í heimsókn í hlöðuna til Helga Björns og Reiðamanna Vindanna. Helena, sem er í kringum áttrætt, sló algerlega í gegn og lék á als oddi. Vikublaðið fékk Helenu til að vera Norðlending vikunnar og situr hér fyrir svörum.
Lesa meira

Matarhornið: Klassískar uppskriftir sem henta vel í matarboðin

„Ég er virkilega ánægður með útnefninguna frá Siguróla vini mínum fyrir þennan ágæta lið,“ segir Hjalti Þór Hreinsson sem hefur umsjón með matarhorni vikunnar. „Ég, og við hjónin, erum ansi dugleg og liðtæk í eldhúsinu. Njótum þess að fá gesti í mat og eigum bæði nokkrar skotheldar uppskriftir sem við grípum oft í, en finnst líka gaman að söðla um og feta nýjar slóðir. Við horfum líka mikið á matreiðsluþætti og ýmislegt tengt mat og matargerð. Þá skoðar maður netið, bæði samfélagsmiðla og heimasíður (mæli með Serious Eats síðunni, sérstaklega). Ég hef mjög gaman af því að lesa, á fjölda uppskriftabóka, allt frá tæknilegum bókum um vísindi bakvið matargerð (mæli með Food Lab eftir Kenji López-Alt), út í sögu matargerðar, til dæmis gaf Siguróli mér einmitt bók um matargerðarlist Íslendinga á miðöldum, Pipraðir Páfuglar. Hafði eðlilega mjög gaman af henni. Ég er meira fyrir slíkar bækur en eiginlegar uppskriftabækur. Ég fylgi ekki oft uppskriftum en fæ oft hugmyndir og innblástur af þeim, sem svo breytast aðeins og þróast þegar maður færir sig í eldhúsið,“ segir Hjalti. „Uppskriftirnar hér eru nokkuð klassískar og eiga það sameiginlegt að henta vel í matarboð og jafnvel í fjölmennari veislur. Við Siguróli höfum einmitt staðið fyrir fögnuði í kringum Superbowl undanfarin ár, þar sló pulled pork til að mynda vel í gegn fyrir nokkrum árum, og nú síðast í janúar var það eftirrétturinn sem var margrómaður.“
Lesa meira

„Voru bara einhverjir sérvitringar sem að stunduðu skíðagöngu“

Gönguskíðaæðið á landinu hefur varla farið framhjá mörgum en nánast annar hver maður stundar nú sportið af harðfylgi. Ólafur Björnsson hjá Skíðafélagi Akureyrar hefur ekki farið varhluta af áhuga Akureyringa og annarra landsmanna á gönguskíðasportinu. Ólafur, sem starfar sem kennari við VMA í aðalstarfi, ræddi við Vikublaðið um íþróttina vinsælu. „Skíðafélag Akureyrar heldur úti reglulegum æfingum fyrir börn og unglinga. Einnig eru vikulegar æfingar fyrir fullorðna. Þar fjölgaði svo mikið í vetur að við þurftum að skipta fólki í fleiri hópa. Það eru tveir svokallaðir byrjendahópar, einn millihópur fyrir fólk með svolitla reynslu og svo er framhaldshópur þar sem stundum er tekið ansi vel á því. Þetta eru sirka 100 manns sem að eru á þessum vikulegu æfingum. Þar erum við þrír þjálfarar. Það hefur verið mikið að gera í námskeiðshaldi og æfingum í vetur en sérstaklega hefur iðkun fullorðinna sprungið út og við erum með tugi manns sem mæta á vikulegar æfingar hjá Skíðafélaginu,“ segir Ólafur. Þá segir hann mikla fjölgun hjá þeim sem stunda skíðagöngu sér til ánægju og heilsubótar.
Lesa meira

Forfallinn Neil Young og Pearl Jam aðdáandi

Vikublaðið í samstarfi við Háskólann á Akureyri mun næstu vikum og mánuðum kynna vísindafólk Háskólans á Akureyri. Við byrjum á að kynna Guðmund Oddsson sem er dósent í félagsfræði við Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri. Einhverjir þekkja hann betur sem Gumma Odds. Rannsóknir hans snúa að stéttaskiptingu, frávikshegðun og félagslegu taumhaldi.
Lesa meira

„Hefði aldrei dottið í hug að 32 ára myndi ég læra að labba á höndum“

Arnór Ragnarsson er 33 ára Húsvíkingur sem starfar sem leiðbeinandi á unglingastigi í Borgarhólsskóla og þjálfar CrossFit á Húsavík. Hann útskrifaðist með diplóma í vefþróun (e. web development) frá Vefskóla Tækniakademíunnar í maí 2017. „Í október 2019 náði ég mér í “CrossFit Level 1 Trainer” réttindi,“ segir Arnór sem er Norðlendingur vikunnar. Arnór segist hafa mikinn áhuga á íþróttum og þá helst fótbolta, CrossFit, körfubolta og bardagaíþróttum. „Sömuleiðis hef ég mjög gaman af tónlist, LEGO, Dungeons & Dragons og að gera eitthvað skemmtilegt með fjölskyldunni líkt og að fara í fjallið og fleira. Svo er fátt skemmtilegra en að setjast niður fyrir framan tölvuna og hanna og forrita skemmtilega lausn,“ segir Arnór og bætir við að þegar hann bjó í Reykjavík hafi hann æft með Mjölni, m.a. víkingaþrek. „Þegar ég flutti aftur heim til Húsavíkur árið 2017 ákvað ég að skrá mig á grunnnámskeið í CrossFit því ég taldi að það væri svipað og víkingaþrekið. Það er vissulega margt svipað en fullt annað sem bættist við og varð ég eiginlega strax “hooked” á því. Það sem heillar mig mest er fjölbreytileikinn. Almennar hreyfingar eins og armbeygjur og hnébeygjur í bland við ólympískar lyftingar og fimleika, keyrt á háu tempói yfir stuttan tíma finnst mér agalega skemmtilegt. Svo er líka svo gaman að sjá bætingar á ólíklegustu hlutum, hefði aldrei dottið í hug að 32 ára myndi ég læra að labba á höndum.“
Lesa meira

„Áskorun að takast á við ný verkefni“

Litla Kompaníið í samstarfi við Leikfélag Akureyrar frumsýndi í gærkvöld einleikinn „Óvænt uppákoma“ eftir Sögu Jónsdóttur sem einnig flytur verkið og Sunna Borg flytur „Bergljótu” sem er ljóðabálkur eftir Björnstjerne Björnsson við píanóundirleik Alexanders Edelstein. Næstu sýningar fara fram 13.-19. og 20. mars. Saga og Sunna hafa unnið mikið saman undanfarin ár og láta engan bilbug á sér finna. Sunna fæddist í Reykjavík og átti heima þar fyrstu ár ævi sinnar en fluttu til Akureyrar árið 1979 og hefur verið hér síðan. Hún útskrifaðist frá leiklistarskóla Þjóðleikhússins árið 1970 og hélt því upp á 50 ára leiklistarafmælið síðasta sumar. Vikublaðið forvitnaðist um líf og störf Sunnu.
Lesa meira