13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
„Hefði aldrei dottið í hug að 32 ára myndi ég læra að labba á höndum“
Arnór Ragnarsson er 33 ára Húsvíkingur sem starfar sem leiðbeinandi á unglingastigi í Borgarhólsskóla og þjálfar CrossFit á Húsavík. Hann útskrifaðist með diplóma í vefþróun (e. web development) frá Vefskóla Tækniakademíunnar í maí 2017. „Í október 2019 náði ég mér í “CrossFit Level 1 Trainer” réttindi,“ segir Arnór sem er Norðlendingur vikunnar. Arnór segist hafa mikinn áhuga á íþróttum og þá helst fótbolta, CrossFit, körfubolta og bardagaíþróttum. „Sömuleiðis hef ég mjög gaman af tónlist, LEGO, Dungeons & Dragons og að gera eitthvað skemmtilegt með fjölskyldunni líkt og að fara í fjallið og fleira. Svo er fátt skemmtilegra en að setjast niður fyrir framan tölvuna og hanna og forrita skemmtilega lausn,“ segir Arnór og bætir við að þegar hann bjó í Reykjavík hafi hann æft með Mjölni, m.a. víkingaþrek. „Þegar ég flutti aftur heim til Húsavíkur árið 2017 ákvað ég að skrá mig á grunnnámskeið í CrossFit því ég taldi að það væri svipað og víkingaþrekið. Það er vissulega margt svipað en fullt annað sem bættist við og varð ég eiginlega strax “hooked” á því. Það sem heillar mig mest er fjölbreytileikinn. Almennar hreyfingar eins og armbeygjur og hnébeygjur í bland við ólympískar lyftingar og fimleika, keyrt á háu tempói yfir stuttan tíma finnst mér agalega skemmtilegt. Svo er líka svo gaman að sjá bætingar á ólíklegustu hlutum, hefði aldrei dottið í hug að 32 ára myndi ég læra að labba á höndum.“