Matarhornið: Klassískar uppskriftir sem henta vel í matarboðin
„Ég er virkilega ánægður með útnefninguna frá Siguróla vini mínum fyrir þennan ágæta lið,“ segir Hjalti Þór Hreinsson sem hefur umsjón með matarhorni vikunnar. „Ég, og við hjónin, erum ansi dugleg og liðtæk í eldhúsinu. Njótum þess að fá gesti í mat og eigum bæði nokkrar skotheldar uppskriftir sem við grípum oft í, en finnst líka gaman að söðla um og feta nýjar slóðir. Við horfum líka mikið á matreiðsluþætti og ýmislegt tengt mat og matargerð. Þá skoðar maður netið, bæði samfélagsmiðla og heimasíður (mæli með Serious Eats síðunni, sérstaklega). Ég hef mjög gaman af því að lesa, á fjölda uppskriftabóka, allt frá tæknilegum bókum um vísindi bakvið matargerð (mæli með Food Lab eftir Kenji López-Alt), út í sögu matargerðar, til dæmis gaf Siguróli mér einmitt bók um matargerðarlist Íslendinga á miðöldum, Pipraðir Páfuglar. Hafði eðlilega mjög gaman af henni. Ég er meira fyrir slíkar bækur en eiginlegar uppskriftabækur. Ég fylgi ekki oft uppskriftum en fæ oft hugmyndir og innblástur af þeim, sem svo breytast aðeins og þróast þegar maður færir sig í eldhúsið,“ segir Hjalti. „Uppskriftirnar hér eru nokkuð klassískar og eiga það sameiginlegt að henta vel í matarboð og jafnvel í fjölmennari veislur. Við Siguróli höfum einmitt staðið fyrir fögnuði í kringum Superbowl undanfarin ár, þar sló pulled pork til að mynda vel í gegn fyrir nokkrum árum, og nú síðast í janúar var það eftirrétturinn sem var margrómaður.“