Metfjölda notaðra snjalltækja skilað inn hjá Elko

Með tilliti til sjálfbærni var árið 2024 sögulegt fyrir ELKO – sérstaklega á Akureyri þar sem viðskiptavinir skiluðu inn og keyptu alls 400 notuð snjalltæki. Þetta gerir árið að metári í viðskiptum með notuð raftæki í versluninni á Akureyri og undirstrikar vaxandi þátttöku almennings í hringrásarhagkerfi raftækja.
Í samstarfi við eistneska endurvinnslurisann Foxway keypti ELKO yfir 7.500 notuð raftæki af viðskiptavinum árið 2024. Tækin fóru svo í ábyrgt endurnýtingar- og endurvinnsluferli. Fyrir tækin greiddi ELKO yfir 20 milljónir króna, en er það um 17% aukning frá fyrra ári.
Allt frauðplast í skipulagt endurvinnsluferli
Áhersla var lögð á að koma frauðplasti í öllum verslunum ELKO í sem best endurvinnsluferli. Með það fyrir augum var tekin í notkun vél til að þjappa saman því frauðpasti sem til féll á höfuðborgarsvæðinu. Á Akureyri var hins vegar farið í samstarf við PolyNorth, en með því fór allt frauðplast í rekstri í skipulagt endurvinnsluferli. Auk þess er nú flokkað í sautján endurvinnsluflokka og náðist 85,5% flokkunarhlutfall hjá ELKO sem er hæsta hlutfall frá upphafi. Í anddyri allra verslana, Akureyri þar á meðal, geta viðskiptavinir skilað raftækjum og raftengdum úrgangi í sérstaka flokkunarkassa. Er þá átt við snúrur, rafhlöður, ljósaperur og smærri raftæki.
„ELKO mældist í fyrsta sæti á raftækjamarkaði samkvæmt Íslensku ánægjuvoginni 2024 og eru góð þjónusta og aukin áhersla á umhverfis- og samfélagsmál liður í þeirri vegferð að eignast ánægðustu viðskiptavinina á raftækjamarkaði. Við erum spennt fyrir því að halda áfram að bæta þjónustu, auka vöruframboð á notuðum vörum og fræða almenning um sjálfbærar neysluvenjur þegar það kemur að raftækjum,“ segir Óttar Örn Sigurbergsson, framkvæmdastjóri ELKO í tilkynningu.