Læstar fréttir

Sigurður hjá SS Byggir í viðtali: Ýmsar rangfærslur varðandi Tónatröð og Eyrina

Talsvert hefur verið rætt og ritað um mögulega þéttingu byggðar á Eyrinni og í Tónatröð að undanförnu og sitt sýnist hverjum. Leitað var álits bæjarfulltrúa í síðasta Vikublaði en nú er tímabært að viðra skoðanir Sigurðar Sigurðssonar, framkvæmdastjóra SS Byggis. „Margir spyrja sig hvers vegna verið sé að þétta byggð? Er ekki til nægilegt landrými? Svarið við þeim spurningum er að fjárhagslega er staða margra sveitarfélaga með þeim hætti að ekki kemur annað til greina en að þétta byggð og gera það myndarlega. Það á svo sannarlega við um Akureyri og það vita allir sem vilja vita,“ segir Sigurður. Hann bendir á að uppbygging og rekstur innviða sveitarfélaga sé stór þáttur í útgjöldum þeirra. „Út frá samgöngu- og umhverfissjónarmiðum verðum við sem samfélag líka að taka ábyrga afstöðu til skipulagsmála, nýta landgæði og stuðla að þéttingu byggðar. Þétting byggðar gefur tækifæri til að skapa blómlegt mannlíf í og við miðkjarna Akureyrar sem gerir sveitarfélagið að samkeppnishæfari og eftirsóknarverðari búsetukosti.“ Sigurður segir ýmsar rangfærslur á sveimi varðandi þessa tvo byggingarkosti, Eyrina og Tónatröð. „Í hvorugu tilvikinu kom frumkvæðið frá SS Byggi. Á Eyrinni breytti Akureyrarbær rammaskipulagi og í tilviki Tónatraðar kom frumkvæðið frá skipulagsyfirvöldum bæjarins. Þar á bæ var bent á þessar lóðir vegna þess að þær höfðu verið lausar í áraraðir. SS Byggir á lóðir og fasteignir á Eyrinni. Akureyrarbær breytti fyrir nokkrum árum skipulaginu þarna, án vitundar okkar, þannig að þar skal nú rísa blönduð byggð; þjónustu, iðnaðar og íbúabyggðar. Fyrirtækinu stendur því ekki til boða að endurbyggja iðnaðarhúsnæði á svæðinu þar sem það uppfyllir ekki kröfur rammaskipulags sveitarfélagsins. Það er heldur ekki hægt, viðskiptalega séð, að byggja þriggja til fjögurra hæða hús á svæðinu þar sem kostnaður við uppkaup fasteigna, dýr grundun og þröng deiliskipulagsskilyrði kollvarpa fjárhagslegum grundvelli slíks verkefnis. Þess vegna gera hugmyndir SS Byggis ráð fyrir að byggja þurfi hærra en núgildandi rammaskipulag gerir ráð fyrir. En ég ítreka að það skipulag sem gerir ráð fyrir fjölbýlishúsum neðan við Hjalteyrargötu er á engan hátt að frumkvæði SS Byggis,“ segir hann.
Lesa meira

„Við sögðum já! Presturinn sagði amen og við vorum orðin hjón“

Húsvíkingurinn Snæbjörn Ragnarsson hefur getið sér góðan orðstír sem bassaleikari og textahöfundur í þungarokkshljómsveitinni Skálmöld og meðal annars unnið íslensku tónlistarverðlaunin fyrir textasmíðar sínar. Meðlimir Skálmaldar eru nú farnir að hugsa um framhaldið eftir að hafa tekið sér verðskuldað hlé í eitt ár. Vikublaðið ræddi við Snæbjörn á dögunum um hið stórundarlega ár 2020. „Við lýstum því yfir um mitt ár 2019 að við ætluðum að taka okkur frí allt árið 2020. Við héldum svo lokatónleika í bili í lok þess árs. Við kynntum þetta þannig að við værum að taka okkur hlé þar til við nenntum að gera eitthvað aftur.“ Þá segir Snæbjörn að það hafi verið samhljómur allra meðlima hljómsveitarinnar um að taka a.m.k. allt síðasta ár í frí og taka svo stöðuna í byrjun árs 2021. „Svo kom bara Covid,“ skýtur hann inn í og fer ekki leynt með það að faraldurinn hafi sparað hljómsveitinni æði mikið vesen. „Það þarf nefnilega að skipuleggja allt svona tónleikahald svo langt fram í tímann, hljómsveitir sem við höfum verið að túra með hafa lent í alls konar vandræðum vegna skipulagðra tónleikaferða sem hefur þurft að fresta eða aflýsa vegna faraldursins.“ Snæbjörn segir frá því að honum hafi þótt skondið hvernig fjölmiðlar slógu því upp að Skálmöld væri hætt þegar bandið tilkynnti fríárið og aðdáendur sveitarinnar fylltust skelfingu. „Við gáfum það aldrei út. Við sögðumst bara ætla að taka smá slaka,“ segir hann og bætir við að hljómsveitin sé nú að vakna út dvalanum. „Við vorum búnir að játa okkur á Evróputúr í mars sem nú er búið að fresta fram í nóvember – desember, en það verður svo bara að koma í ljós hvort það gengur upp,“ segir Snæbjörn og lætur ekki óvissuna koma sér út jafnvægi en segir pásuna hafa gert gæfu muninn fyrir mannskapinn. Nú séu allir komnir í stuð til að fara gera eitthvað aftur. Snæbjörn og Baldur bróðir hans eru báðir meðlimir Skálmaldar og spila einnig með Ljótu Hálfvitunum en þaðan kemur hugmyndin um að taka góða pásu og hætta alveg að hugsa um allt sem viðkemur hljómsveitinni. „Þegar Ljótu hálfvitarnir voru búnir að spila alveg gjörsamlega í drep fyrstu 2-3 árin þá vorum við alveg að því komnir að drepa hvorn annan,“ segir Snæbjörn léttur í bragði og bætir við að þá hafi það einmitt verið lagt til að taka góða pásu til að hlaða rafhlöðurnar. „Þá tókum við þessa ákvörðun að vera ekkert að hægja bara á heldur drepa alveg á vélinni og hætta að hugsa um þetta,“ útskýrir hann og bætir við að það hafi verið í þessari pásu að þeir bræður stofnuðu Skálmöld. „Eftir að við tókum pásu í Ljótu Hálfvitunum hefur aldrei verið jafn gaman að spila, og ég held að við séum að fara upplifa það sama í Skálmöld.“ Ljótu hálfvitarnir eru í fullu fjöri og koma meira að segja norður yfir heiðar um páskana og halda tvenna tónleika á Græna Hattinum.
Lesa meira

„Mikilvægast að hafa húmor fyrir öllu saman“

„Viðtökurnar hafa verið alveg ótrúlegar og virkilega gaman að geta boðið upp á svona gleðibombu eftir allt sem hefur gengið á undanfarna mánuði. Við erum líka svo glöð að sjá hvað fólk er duglegt að mæta í leikhúsið eftir þennan langa menningardvala,“ segir Birna Pétursdóttir leikkona. Hún ásamt Vilhjálmi B. Bragason og Árna Beinteini Árnasyni standa að gamanleiknum Fullorðin sem Leikfélag Akureyrar sýnir um þessar mundir í Menningarhúsinu Hofi. Sýningin hefur slegið í gegn og fengið fína dóma. Vegna eftirspurnar hefur þurft að bæta við sýningum fram í apríl og verður haldið áfram að bæta við eftir þörfum. Leikarar sýningarinnar þau Birna, Árni og Vilhjálmur eru einnig höfundar verksins þar sem þau fjalla á sprenghlægilegan hátt um grátbroslegar hliðar þess að fullorðnast, pressuna um að vera með allt á hreinu, eiga fasteign, vera með menntun, góða vinnu, eiga maka og börn - því annars er lífið misheppnað. Vikublaðið ræddi við Birnu um sýninguna og hana sjálfa.
Lesa meira

Norðlendingur vikunnar: Samlestur á Litlu Hryllingsbúðinni að hefjast

Guðrún Einarsdóttir, ólst upp á Húsavík og er menntaður íþróttafræðingur, búin með grunnnám í sjúkraflutningum og er núna að læra hjúkrunarfærði við Háskólann á Akureyri. „Ég kenndi íþróttir við Borgarhólsskóla í nokkur ár en hætti því þegar ég byrjaði í HA, samhliða náminu er ég að vinna á Dvalarheimilinu Hvammi og í sjúkraflutningum fyrir Slökkvilið Norðurþings. Síðast liðið haust tók ég við sem formaður Leikfélags Húsavíkur en var áður í stjórn leikfélagsins,“ segir hún. Í fyrra setti Leikfélag Húsavíkur upp Litlu Hryllingsbúðina sem fékk frábærar viðtökur en þá gerðist svolítið sem heitir Covid-19. Sýningarnar urðu því ekki eins margar og eftirspurnin kallaði eftir og því hefur verið ákveðið að halda áfram með sömu sýningu á þessu leikári og eru æfingar að hefjast á ný þessa dagana. Að sögn Guðrúnar er stefnt á aðra frumsýningu laugardaginn 20. mars. Guðrún er Norðlendingur vikunnar.
Lesa meira

Einfaldleikinn á virkum dögum en matarstúss um helgar

Ingibjörg Isaksen, bæjarfulltrúi á Akureyri og framkvæmdastjóri Læknastofa Akureyrar, tók áskorun Helga Héðinssonar og sér um matarhornið þessa vikuna. „Ég var lengi vel kennari í Brekkuskóla og sundþjálfari en sundið hefur leikið stóran part í mínu lífi frá unga aldri. Ég var í unglingalandsliðinu og landsliðinu í sundi, þjálfaði og kenndi sund, m.a. skriðsundsnámskeið sem eru afar vinsæl hér á Akureyri. Þegar pólitíkin fór svo að taka meiri tíma varð eitthvað undan að láta og tóku þá aðrir við sundkennslunni. Dagskrá vikunnar er yfirleitt þétt skipuð hjá okkur og matseldin því oftast einföld á virkum dögum en um helgar bjóðum við oftar en ekki fjölskyldu eða vinum í mat,“ segir Ingibjörg. „Ég er þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga stóra fjölskyldu en samtals eigum við hjónin sex börn og eitt barnabarn. Á borði fjölskyldunnar er reglulega kjöt og má segja að lambalærið klikki aldrei. Því bregður því oft við um helgar að lambalæri sé skellt á grillið og stórfjölskyldunni boðið í mat. Okkur finnst afar gaman að elda góðan mat og eins að bjóða fólki í mat. Við reynum eftir fremsta megni að kaupa hráefnin úr héraði þar sem því verður við komið en við kaupum t.d. kartöflurnar okkar ýmist frá Þórustöðum eða Lómatjörn, kjöt úr héraði og veljum íslenskt grænmeti þegar það er í boði. Ég ætla að deila með ykkur uppskrift af einföldum en afar góðum réttum.
Lesa meira

„Leggjum mikla áherslu á gæða hráefni úr héraði“

Matgæðingur vikunnar hefur síðustu 15 ár byggt upp rekst­ur á Geiteyj­ar­strönd í Mý­vatns­sveit í ferðaþjón­ustu, fisk­vinnslu og við sauðfjár­bú­skap. Hann er í dag oddviti Skútustaðahrepps og gefur kost á sér á lista Fram­sókn­ar­flokks­ins í Norðaust­ur­kjör­dæmi fyrir komandi þingkosningar. Þá er hann formaður Veiðifélags Mývatns og því ætti ekki að koma á óvart hvaða réttir eru galdraðir fram að þessu sinni. Matgæðingur vikunnar er Helgi Héðinsson. Helgi hefur á orði að nú gangi í garð tími sem hjúpaður er dýrðarljóma í hugum margra Norðlendinga, en nýlega hófst veiði í Mývatni eftir veiðihlé frá því í lok ágúst.
Lesa meira

Þúsundþjalasmiður þegar kemur að tónlist

Tónlistarmaðurinn Valmar Valjaots flutti til Íslands frá Tallinn í Eistlandi árið 1994 og hefur búið hér á landi í um 26 ár. Tilviljun dró hann hingað til lands á sínum tíma og segir hann það forréttindi að geta lifað sem tónlistarmaður. Hann er sannkallaður þúsundþjalasmiður þegar kemur að tónlist og getur nánast leikið á hvaða hljóðfæri sem er. Valmar er Norðlendingur vikunnar að þessu sinni og situr hér fyrir svörum.
Lesa meira

Bíður eftir sumrinu og að geta heimsótt dóttur sína erlendis

Úlfhildur Rögnvaldsdóttir er fyrrum formaður Félags verslunar- og skrifstofufólks á Akureyri til tíu ára og starfaði einnig í verslun, banka og hjá ýmsum félagasamtökum á sínum starfsferli. Úlfhildur var bæjarfulltrúi á Akureyri fyrir Framsóknarflokkinn í þrjú kjörtímabil frá 1982-1994 og starfaði í ýmsum nefndum. Nokkur ár eru síðan hún fór á eftirlaun og hefur hún m.a. starfað með Félagi eldri borgara á Akureyri eftir að starfsferlinum lauk. Úlfhildur er Norðlendingur vikunnar og situr hér fyrir svörum.
Lesa meira

„Sá sem ekki kann að elda hefur ekkert að gera á þing“

Guðmundi Vilhjálmssyni er margt til lista lagt en hann á og rekur Garðvík ehf. á Húsavík. Samkvæmt síðasta matgæðingi er Guðmundur matmaður mikill og því vel við hæfi að hann taki við keflinu. „Sá matur sem mér þykir bestur sem hátíðarmatur er reyktur kjúklingur. Móðir mín tjáði mér þegar hún dvaldi langdvölum í Reykjavík með veika systur mína, þá hafi hún farið með Margréti móðursystur sinni á Hótel Holt og þær fengið þennan dýrindisrétt. Margrét móðursystir mömmu var gift Gísla Guðmundssyni alþingismanni og var mikið samband á milli heimilanna,“ segir Guðmundur sem er matgæðingur vikunnar, við gefum honum orðið.
Lesa meira

„Kemur mér alltaf jafn mikið á óvart“

Kraftlyftingamaðurinn Viktor Samúelsson úr KFA var valinn íþróttakarl Akureyrar árið 2020 á dögunum en kjörinu var lýst á verðlaunahófi á vegum Íþróttabandalags Akureyrar og frístundaráðs Akureyrarbæjar í Menningarhúsinu Hofi. Viktor á langan afreksferil að baki og er þetta í fimmta skipti sem hann er kjörinn íþróttakarl Akureyrar. „Þetta er alltaf jafn gaman og mikill heiður. Það kemur mér alltaf á óvart þegar ég er valinn,“ segir Viktor. Spurður um hver sé lykillinn að þessum góða árangri segir Viktor ekki hafa greið svör. „Ég veit það eiginlega ekki satt að segja. Ég hef aldrei búist við því að hljóta þessa nafnsbót nema í eitt skipti kannski. Ég einbeiti mér bara að mínu sporti og því sem ég er að gera, tek eitt mót í einu og fylgist mjög lítið með því hvað aðrir eru að gera.“
Lesa meira