13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Bólusetningarnar verið afar krefjandi en lærdómsríkt ferli
Inga Berglind Birgisdóttir er yfirhjúkrunarfræðingur hjá HSN sem hefur séð um bólusetningar á Norðurlandi. Nóg hefur verið að gera hjá Ingu undanfarið og í mörg horn að líta enda eru bólusetningarnar afar vandasamt og krefjandi verkefni. Vikublaðið forvitnaðist um líf og starf Ingu Berglindar. „Bólusetningarnar hérna fyrir norðan hafa heilt yfir gengið mjög vel og ég er afar þakklát fyrir hvað það er frábært fólk sem hefur komið að þessu stóra verkefni. Helst ber að nefna mjög gott samstarf allra viðbragðsaðila hér á Akureyri og þá helst Slökkviliðið og lögreglu, einnig Rauða Krossinn, Landsbjörgu og Sjúkrahúsið. Síðast en alls ekki síst allt starfsfólkið á HSN sem hefur staðið sig afar vel í þessu stóra verkefni,“ segir Inga Berglind. Hún segir að almennt sé fólk jákvætt fyrir því að fá bóluefni. „Flestir eru mjög fegnir að loks sé komið að því að bólusetja landann. Margir hafa verið í erfiðri stöðu um langa hríð og því er það mikið gleðiefni fyrir fólk að fá bólusetningu. Það er mín upplifun að fólki finnst þetta ganga of hægt og flestir eru tilbúnir að rétta fram handlegginn og þiggja bóluefni.“ Hún segir þetta umfangsmesta verkefnið sem hún hafi tekist á við í sínu starfi. „Tvímælalaust. Eins og bara faraldurinn allur. Við rétt blikkum augunum og þá eru áherslurnar í dag orðnar allt aðrar en í gær en með einhverjum ótrúlegum hætti náum við þó alltaf að rétta úr okkur og halda áfram. Vinnudagarnir hafa verið bæði langir og strangir og stundum erfitt að slíta sig frá vinnu eftir að heim er komið. En þrátt fyrir það hafa þeir líka verið lærdómsríkir og skemmtilegir.“ Inga segir að enginn dagur sé eins í vinnunni.