Þorsteinn Kári gefur út Skuggamynd

Þorsteinn Kári. Mynd/MBS.
Þorsteinn Kári. Mynd/MBS.

Tónlistarmaðurinn Þorsteinn Kári gaf í vikunni út lagið Skuggamynd sem er annar singúllinn af næstu plötu hans sem ber heitið Hvörf. Skuggamynd er nú aðgengileg á öllum helstu streymisveitum.

Lagið fjallar um stöðuga endurtekningu hversdagsleikans. Hvernig hlutirnir virðast endurtaka sig dag eftir dag með vélrænum hætti og láta mann missa sjónar á sjálfum sér og gleyma því hver maður er.

Lagið var hljóðritað að mestu leyti á Akureyri síðla árs 2023, en trommurnar voru hljóðritaðar í Berlín. Upptöku á Akureyri stjórnaði Þorsteinn Kári sjálfur, en tökum á trommum stjórnuðu Jón Haukur Unnarsson ásamt Nirmalya Banerjee.

Inn á lagið spiluðu ásamt Þorsteini Kára þeir Ingi Jóhann Friðjónsson á bassa og Jón Haukur Unnarsson á trommur og slagverk.

Þorsteinn Kári hefur áður gefið út sóló plötuna Eyland árið 2019, ásamt því að vinna í útgáfum ýmsra listamanna síðastliðna tvo áratugi sem framleiðandi og upptökustjóri.

Um útgáfu sér listakollektífið og útgáfufélagið MBS á Akureyri. MBS hefur staðið að tónlistarútgáfu frá árinu 2010 en einnig haldið tónlistarhátíðina Mannfólkið breytist í slím frá árinu 2018. Hvörf verður gefin út á vínyl en hægt er að forpanta plötuna í vefverslun MBS.

Nýjast