„Það eru allir flokkar í vandræðum með að stilla á lista“
Þá er ár sveitarstjórnarkosninga gengið í garð en þann 14. maí nk. gefst fólki kostur á að kjósa sér fulltrúa til að fara með stjórnartaumana í sínum sveitarfélögum næstu fjögur árin.
Vikublaðið spáir í spilin fram að kosningum og hitar upp fyrir þessa lýðræðishátíð sveitarfélaganna fram að kosningum.
Oddur Helgi Halldórsson, fyrrum bæjarfulltrúi og stofnandi L-listans á Akureyri ræddi við Vikublaðið á dögunum en honum þykir áhugi á sveitarstjórnapólitík hafa dvínað mikið með árunum.
Það eru um 24 ár síðan L- listinn var stofnaður og hefur flokkurinn allar götur síðan átt fulltrúa í bæjarstjórn. Árið 2010 var sögulegt en þá fékk L-listinn hreinan meirihluta eða sex fulltrúa í bæjarstjórn á Akureyri.
Ekki í framboð
Oddur Helgi var á kafi í bæjarpólitíkinni í 20 ár áður en hann hætti árið 2014, fyrstu þrjú sem varamaður fyrir Framsóknarflokkinn og eitt sem aðalmaður. Eftir stofnun L-listans 1998 var hann bæjarfulltrúi í hans nafni þar til hann hætti 16 árum síðar.
Þrátt fyrir að vera ekki lengur kjörinn fulltrúi í bæjarpólitíkinni hefur Oddur Helgi síður en svo hætt að hafa skoðanir á henni en aðspurður segir hann að hann hugi ekki að framboðið í maí. „Ég var nú í þessu í 20 ár, þannig að ég á ekki von á því,“ segir hann glettinn.
Áhugaleysi í bæjarmálunum
Þegar talið berst að bæjarpólitíkinni eins og hún horfir við honum í dag segir Oddur Helgi að almennt áhugaleysi sé einkennandi fyrir stöðuna í dag. „Það hefur enginn áhuga á bæjarmálunum lengur. Þegar ég var í þessu var það áhuginn sem dreif mann áfram. Núna virðist enginn áhugi vera og þeir sem eru á annað borð í þessu virðast vera að þessu frekar af því að þeir eru neyddir í þetta frekar en hitt. Menn virðast bara ekki vera tilbúnir að gefa vinnuna sína eins og við gerðum. Það vill enginn taka þetta að sér lengur,“ segir hann íbygginn.